Erlent

Fujimori segir að fangelsið myndi ganga af honum dauðum

Kjartan Kjartansson skrifar
Fujimori var forseti Perú frá 1990 til 2000. Hann var frameldur frá Japan árið 2007 og var síðar dæmdur fyrir mannréttindabrot og spillingu.
Fujimori var forseti Perú frá 1990 til 2000. Hann var frameldur frá Japan árið 2007 og var síðar dæmdur fyrir mannréttindabrot og spillingu. Vísir/EPA
Alberto Fujimori, fyrrverandi forseti Perú, grátbað forseta landsins og dómara um að senda sig ekki aftur í fangelsi því það myndi ríða honum að fullu. Dómstóll felldi í gær úr gildi náðun sem fyrrverandi forseti veitti Fujimori í lok síðasta árs.

Í myndbandsávarpi sem Fujimori, sem nú er áttræður, tók upp á heilsuhæli þar sem hann er til meðferðar bað hann yfirvöld um að nota sig ekki sem „pólitískt vopn“ þar sem hann hefði ekki „þrótt til að berjast á móti“.

Fujimori afplánaði 25 ára fangelsisdóm fyrir mannréttindabrot og spillingu þangað til í desember þegar Pedro Pablo Kuzcynski, þáverandi forseti, náðaði hann af heilsufarsástæðum. Ásakanir voru um að Kuzcynski hafði náðað Fujimori til að kaupa sér stuðning stjórnmálaflokks dóttur hans þegar vantraust vofði yfir honum í þinginu. Kuzcynski sagði af sér í mars vegna ásakana um atkvæðakaup.

Náðunin var ógilt fyrir dómi í gær og skipaði dómari að Fujimori skyldi færður aftur í fangelsið. Lögmenn hans áfrýjuðu niðurstöðunni í dag, að sögn Reuters-fréttastofunnar.

„Ég vil biðja forseta lýðveldisins og meðlimi dómstóla um aðeins eitt: gerið það, drepið mig ekki. Ef ég fer aftur í fangelsi mun hjarta mitt ekki ráða við það. Það er of veikburða til að ganga í gegnum það sama aftur,“ sagði Fujimori í ávarpinu.

Fujimori tók sér alræðisvald í Perú á 10. áratug síðustu aldar, að eigin sögn til að geta beitt sér af fullum krafti gegn uppreisnarsamtökunum Skínandi stíg. Í þeim tilgangi veitti hann dauðasveitum blessun sína til að myrða fólk án dóms og laga.


Tengdar fréttir

Forseti Perú segir af sér vegna atkvæðakaupa

Myndband kom fram sem virtist sýna bandamenn forsetans bjóða stjórnarandstöðuþingmönnum ábatasama samninga við ríkið í skiptum fyrir atkvæði þeirra gegn ákæru í þinginu.

Fyrrverandi forseti Perú náðaður

Alberto Fujimori tók sér einræðisvald í Perú á 10. áratugnum. Hann var meðal annars fundinn sekur um að hafa heimilað morð dauðasveita á fólki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×