Viðskipti innlent

Guide to Iceland fær rúmlega 2 milljarða fjárfestingu

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Davíð Ólafur Ingimarsson, aðstoðarforstjóri Guide to Iceland.
Davíð Ólafur Ingimarsson, aðstoðarforstjóri Guide to Iceland. aðsend
Bandaríska ráðgjafa- og eignarstýringafyrirtækið State Street Global Advisors hefur fjárfest í bókunarfyrirtækinu Guide to Iceland fyrir 20 milljónir bandaríkjadala, rúma 2.2 milljarða króna.

Guide to Iceland var stofnað 2012 og rekur vefsíðuna guidetoiceland.is sem er eins konar markaðstorg fyrir íslenska ferðaþjónustu. Þar koma ferðaþjónustufyrirtæki vörum sínum á framfæri gegn þóknun.

Þetta er í fyrsta sinn sem fyrirtækið sækir sér fjármagn til útlanda. Davíð Ólafur Ingimarsson, aðstoðarforstjóri Guide to Iceland, segir fjárfestinguna marka ákveðin tímamót.

„Þessi fjárfesting gerir okkur kleift að halda áfram að markaðssetja Ísland sem áfangastað. Á sama tíma er mjög spennandi að geta sannreynt viðskiptalíkan og hugbúnað okkar á erlendum mörkuðum í samvinnu við alþjóðlegan fjárfesti,“ segir Davíð og bætir við að markmiðið sé að „margfalda stærð fyrirtækisins á næstu árum.“ 

Greint var frá því í lok júlí að Guide to Iceland hafi hagnast um 676 milljónir króna á síðasta ári og samþykkti stjórn félagsins að greiða 600 milljóna króna arð til hluthafa. Heildartekjur Guide to Iceland árið 2017 voru um 4,8 mlljarðar króna og tekjuvöxturinn á árabilinu 2013 til 2016 nam um 30 þúsund prósentum.

Stærstu hluthafar í Guide to Ice­land fyrir fjárfestingu State Street Global Advisors voru Ingólfur Abraham Shahin með 55,3 prósenta hlut í gegnum félagið Djengis, Iurie Belegurschi með 18,5 prósent í gegnum Aurora Capital og Xiaochen Tian með 9,2 prósent í gegnum Chenchen.


Tengdar fréttir

Guide to Iceland kaupir Bungalo

Starfsemi Bungalo hefur nú alfarið flust til höfuðstöðva Guide to Iceland í Borgartúni 29, en Bungalo mun þó áfram verða rekið sem sjálfstætt félag.

Fyrirtækið Guide to Iceland greiðir 600 milljóna króna arð

Guide to Iceland sem rekur markaðstorg fyrir íslensk ferðaþjónustufyrirtæki hagnaðist um 676 milljónir króna á síðasta ári. Tekjuvöxtur fyrirtækisins nam 70 prósentum á milli ára. Vinna að því að fara í útrás með hugbúnaðinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×