Skoðun

Hinsegin dagar – Verðum í fremstu röð

Ásmundur Einar Daðason skrifar
Um leið og við fögnum glæsilegri dagskrá Hinsegin daga, þá er hollt að rifja upp hvað hefur áunnist í réttindum hinsegin fólks á undanförnum áratugum og ræða næstu skref.

Í tilefni 40 ára afmælis Samtakanna '78 er fróðlegt að rifja upp stöðu hinsegin fólks á áttunda áratugnum. Algengt var að hinsegin fólk hafi verið í felum með tilfinningar sínar eða afneitað þeim. Þar með misstu margir af þeim mikilvægu þáttum lífsins sem felast í því að vera ástfanginn, að deila lífi sínu, vonum og væntingum. Til voru þeir sem börðust fyrir tilveru sinni, gegn viðhorfum samfélagsins og fordómum þess. Skiljanlega voru ekki margir tilbúnir í þessa baráttu, því fórnarkostnaðurinn gat verið hár.

Í janúarmánuði 1978 var Herði Torfasyni meinaður aðgangur að skemmtistað í Reykjavík vegna kynhneigðar sinnar, en þessu lýsir hann vel í ævisögu sinni. Atvikið, auk annarra, varð til þess að hann hóf undirbúning að stofnun samtaka samkynhneigðra. Ég efa að þeir tólf samkynhneigðu karlmenn sem sátu stofnfund Samtakanna '78 hafi látið sig dreyma um þær samfélagsbreytingar sem hafa orðið.

Þrátt fyrir baráttu fyrri ára og mikinn árangur er það því miður svo að Ísland hefur dregist aftur úr nágrannaþjóðunum hvað varðar réttindi hinsegin fólks og því þurfum við að breyta.

Það var mjög ánægjulegt að leggja fram og sjá samþykkt lög um jafna meðferð á vinnumarkaði á grundvelli kynhneigðar, kynvitundar, kyneinkenna og kyntjáningar. Á þessu ári hafa fjárframlög til Samtakanna '78 einnig verið tvöfölduð. Í samningnum við samtökin var ráðgjafar- og fræðsluhlutverk þeirra eflt, m.a. með sértækri ráðgjöf og fræðslu um málefni hinsegin fólks. Þá er stefnan að leggja fram frumvarp um kynrænt sjálfræði á næsta þingi sem mun styrkja mjög stöðu hinsegin fólks á Íslandi.

Stefna núverandi ríkisstjórnar er að komast í fremstu röð í málefnum hinsegin fólks. Það á að geta tekist hratt og vel. Ég hlakka til að taka þátt í áframhaldandi vinnu með mannréttindi allra að leiðarljósi. Gleðilega hinsegin daga!

Höfundur er ráðherra félags- og jafnréttismála




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×