Upplagið af málinu var gríðarlega takmarkað og aðeins fáanlegt í einn sólarhring, frá miðnætti 9. ágúst til síðastliðins miðnættis, á völdum sölustöðum Múmínbollanna sem og í opinberri netverslun Múmínálfanna. Uppsett verð voru 29,90 evrur, eða rúmlega 3700 krónur. Áhuginn var gríðarlegur og mynduðust langar biðraðir við fjöldamörg Múmínútibú í Skandinavíu. Bollarnir seldust upp á svipstundu og sátu margir Múmínáhangendur eftir með sárt ennið.
Þeir þurfa því nú að reiða sig á eftirmarkaðinn og eru íslenskir Múmínsafnarar þar engin undantekning. Þeir hafa safnast saman í Facebook-hópnum Múmínmarkaðurinn þar sem bollar og annar Múmínvarningur gengur kaupum og sölum.

Eftirspurnin eftir fágætum Múmínmálum ætti ekki að koma fólki á óvart sem hefur kynnt sér niðurstöður ritgerðarinnar Kauphegðun Íslendinga : múmínbollar og hjarðhegðun. Eins og nafnið gefur til kynna var rannsóknarefnið áhugi landsmanna á Múmínmálunum og var spurningalisti lagður fyrir meðlimi fyrrnefnda Múmínmarkaðarins.
Sjá einnig: Eftirminnilegustu raðir okkar tíma
Niðurstöðurnar gefa meðal annars til kynna að flestir íslenskir Múmínaðdáendur eru konur, en þær voru alls 99 prósent svarenda. Flestar þeirra áttu á bilinu 6 til 10 Múmínbolla og segir meirihluti þeirra að áhuginn á bollasöfnuninni hafi kviknað eftir að þær höfðu fengið fyrsta málið að gjöf. Margar þeirra safna jafnframt öðrum hlutum, á borð við Ittala-vörum og matarstelli.
Múmínáhangendur verja jafnframt miklum tíma á netinu á hverjum degi, svörin gefa til kynna að 38% þeirra eyði um 3 til 4 klukkustundum á sólarhring í það að vafra um á netinu. Það fær rannsakandann til að leiða sig að þeirri niðurstöðu að áhugann á málunum megi að einhverju leyti rekja til sýnileika bollanna á samfélagsmiðlum, í auglýsingum og í verslunum. Þá séu Íslendingar einnig gjarnir á að fá æði fyrir tilteknum vörum, eins og áhugi landsmanna á Omaggio-vösum og hillum úr Söstrene Grene beri með sér.