Erlent

Pílagrímum frá Katar meinaður aðgangur að heilögustu stöðum múslima

Gunnar Hrafn Jónsson skrifar
Kaaba, helgasti staður jarðar í trú múslima.
Kaaba, helgasti staður jarðar í trú múslima.
Stjórnvöld í Katar segja að Sádí-Arabar hafi meinað pílagrímum frá Katar að taka þátt í pílagrímsför til Mekka í ár. Sádar fara fyrir bandalagi arabaþjóða við Persaflóa sem hafa sett Katar í herkví síðustu mánuði.

Deilan er löng og flókin er snýst að miklu leiti um valdatafl Sádí-Arabíu og Írans sem eru valdapólarnir tveir við Persaflóa. Sádar saka konungsfjölskylduna í Katar um að vera of höll undir Írana.

Hin árlega pílagrímsferð til Mekka er lykilhluti af trúarlífi múslima um allan heim. Öllum múslimum ber skylda til að fara í eina slíka ferð um ævina ef þeir hafa tök á. Þar sem Sádar stjórna aðgengi að heilögustu stöðum Íslam í Mekka og Medínu gegna þarlend stjórnvöld mikilvægu hlutverki við að skrásetja pílagríma og skipuleggja hina árlegu ferð.

Yfirvöld í Katar segja að með því að meina ríkisborgurum sínum að taka þátt í einni af grunnstoðum trúarinnar séu Sádar að bregðast skyldum sínum sem verndarar trúarinnar á Arabíuskaga.

Fullyrt er að búið sé að loka fyrir aðgang Katara að sérstöku rafrænu kerfi sem er notað um allan heim til að skrásetja pílagríma. Sé það rétt er líklegt að það veki ugg meðal múslima sem búa í ríkjum sem ekki eru hliðholl pólitískri stefnu Sádí-Arabíu. Sádar hafa oft áður verið sakaður um að misnota yfirráð sín yfir Mekka til að kúga aðrar múslimaþjóðir til hlýðni.


Tengdar fréttir

Í köldu stríði

Íranar og Sádi-Arabar hafa í áratugaraðir tekist á um völdin í Mið-Austurlöndum. Sífellt hitnar í kolunum. Styðja sína hliðina hvorir í Sýrlandi og Jemen.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×