Donald Trump Bandaríkjaforseti segist reiðubúinn að hitta Hassan Rouhani, forseti Írans, hvenær sem hann vill og án nokkurra skilyrða. Grunnt hefur verið á því góða hjá Trump og Rouhani sem skiptust nýlega á hótunum á samfélagsmiðlum.
„Ef þeir vilja hittast þá hittumst við,“ sagði Trump þegar fréttamenn spurðu hann út í samskiptin við Íran á blaðamannafundi með Guiseppe Conte, forsætisráðherra Ítalíu, í Hvíta húsinu í dag.
„Ég myndi hitta hvern sem er. Ég trúi á fundi,“ sagði forsetinn jafnframt, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.
Ríkisstjórn Trump undirbýr nú að legga viðskiptaþvinganir aftur á Íran eftir að hann ákvað að draga Bandaríkin út úr kjarnorkusamningi heimsveldanna við Írani.
Það var í síðustu viku sem Trump tísti í hástöfum og hótaði Rouhani að Íran myndi „þola afleiðingar sem fáir í sögunni hafa nokkru sinni upplifað áður“ ef íranski forsetinn hefði í hótunum við Bandaríkjamenn.
Rouhani hafði þá varað Trump við að efna til ófriðar við Íran.
Trump segist tilbúinn að hitta forseta Írans

Tengdar fréttir

Trump sendi Íran tóninn í hástöfum
Forseti Bandaríkjanna brást ókvæða við ræðu íranska starfsbróður síns, Hassan Rouhani, sem sá síðarnefndi flutti í nótt.