Körfubolti

Íslandsmeistaraþjálfari í 2. deildina

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Hrafn Kristjánsson fer úr Domino´s-deildinni í 2. deildina.
Hrafn Kristjánsson fer úr Domino´s-deildinni í 2. deildina. mynd/álftanes
Hrafn Kristjánsson hefur verið ráðinn þjálfari körfuboltaliðs Álftanes sem leikur í 2. deildinni en þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá félaginu.

Þetta er gríðarlegur hvalreki fyrir Álftanes en Hrafn er einn af betri þjálfurum landsins. Hann gerði KR að tvöföldum meisturum árið 2011 og Stjörnuna að bikarmeisturum árið 2015. Hann fer nú niður um tvær deildir úr Domino´s-deildinni í 2. deildina.

Hrafn stýrði Stjörnunni í þrjú ár og kom liðinu ávallt í úrslitakeppnina. Liðinu var sópað í sumarfrí í undanúrslitum 2017 og tapaði svo átta liða úrslitum á síðustu leiktíð.

Hann hóf þjálfaraferilinn hjá KFÍ fyrir vestan en stýrði svo Þór Akureyri og Breiðabliki áður en að hann fór í Vesturbæinn og síðar í Garðabæinn. Hann flytur sig nú um set en ekki langt. Reyndar innan sama sveitarfélags.

Álftanes vann 3. deild karla á síðustu leiktíð og leikur því í 2. deildinni í vetur auk þess sem að liðið mun taka þátt í Maltbikarnum.

Út á Álftanesi mun hann stýra fyrrverandi aðstoðarþjálfara sínum, Kjartani Atla Kjartanssyni, en stórskyttan og fjölmiðlamaðurinn er stjörnuleikmaður Álftanes. Þá mun hann fá það erfiða verkefni að virkja „Stóra barnið“ undir körfunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×