Skoðun

Úrelt hugsun

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
„Hugbúnaður er að éta heiminn,“ sagði fjárfestirinn Marc Andreessen þegar hann var beðinn um að lýsa þeim áhrifum sem hann teldi að tækniframfarir hefðu haft á daglegt líf fólks. Til útskýringar benti hann á að fyrir fimmtán árum hefðu einungis fimmtíu milljónir manna notað internetið en í dag notuðu fjórir milljarðar það.

Sú öra tækniþróun sem Andre­essen lýsti hefur á síðustu árum brotið niður múra í viðskiptum og gjörbylt verslunarhegðun okkar á áður ófyrirséðan hátt. Tækifærin sem þessar framfarir hafa skapað eru óþrjótandi eins og risafyrirtæki á borð við Apple, Amazon og Alibaba hafa sýnt okkur en að sama skapi hefur tæknin ógnað þeim fyrirtækjum sem hafa ekki lagað sig að breyttum tímum.

Sagan geymir fjölmörg dæmi um fyrirtæki sem gnæfðu yfir keppinauta sína allt þar til ný tækni kippti fótunum undan þeim. Nefna mætti Blockbuster, Kodak og Nokia.

Sagan kennir okkur að fyrirtæki þurfa annaðhvort að ná aukinni hagkvæmni til þess að standast sífellt harðnandi samkeppni eða verða nýrri tækni að bráð.

En það er hins vegar ekki nóg að fyrirtækin bregðist við breyttum aðstæðum. Sömu kröfu þarf jafnframt að gera til þess lagaramma sem fyrirtækjunum er settur. Hann má ekki vera svo stífur að þau geti sig hvergi hreyft. Það skýtur til dæmis skökku við að stjórnvöld skuli ekki taka mið af tækniframförum og aukinni netverslun, sem hafa þurrkað út hefðbundin landamæri, þegar þau skilgreina markaði í samrunamálum. Túlkun stjórnvalda er oft á tíðum úrelt og gamaldags í síbreytilegum heimi. Nýr raunveruleiki kallar á breytta sýn. Það á jafnt við um fyrirtæki og stjórnvöld.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×