Skoðun

Efndir, ekki nefndir

Sigurður Hannesson skrifar
Góð lífsgæði þjóða verða til á grundvelli verðmætasköpunar. Í samkeppni fyrirtækja á ólíkum mörkuðum skiptir samkeppnishæfni þess ríkis sem fyrirtækin starfa í meginmáli. Starfsumhverfi fyrirtækja er einn fjögurra þátta sem mestu ræður um samkeppnishæfni ríkja, ásamt menntun, innviðum og nýsköpun. Staðan hér er ekki eins og best verður á kosið í þessum efnum. Hér á landi eru laun há í alþjóðlegum samanburði, skattar á fyrirtæki eru háir og munar þar mestu um tryggingagjaldið auk þess sem vextir eru hærri hér en í nágrannalöndunum. Miklar vonir eru bundnar við að endurskoðun peningastefnu geti ásamt umbótum á vinnumarkaði og stefnu í opinberum fjármálum breytt því til lengri tíma litið en þá þarf að taka ákvarðanir strax.

Efnahagsleg endurreisn Íslands tókst vonum framar og henni er nú lokið. Losun fjármagnshafta var þarft verk sem leysti mikla og jákvæða krafta úr læðingi. Um það hafa allir verið sammála að peningastefnu þyrfti að endurskoða þegar höft væru losuð. Af því tilefni hafa verið skrifaðar vandaðar skýrslur með greiningum og tillögum, bæði af Seðlabanka Íslands og nú nýlega af hópi á vegum ríkisstjórnarinnar. Það vantar því ekki tillögur og vandinn er vel skilgreindur. Því miður er þessari endurskoðun þó ekki lokið, tæpum áratug eftir að höft voru sett á. Auka þarf fyrirsjáanleika í þessu mikilvæga máli.

Lengi hafa raunvextir hér á landi verið hærri en í nágrannaríkjunum. Það er aukakostnaður fyrir fyrirtæki hér á landi sem erlendir samkeppnisaðilar þurfa ekki að bera. Slíkt getur skapað ógn við fjármálalegan stöðugleika eins og kom í ljós fyrr á þessari öld þar sem erlendir fjárfestar sóttu í háa vexti hérlendis og innlend fyrirtæki og heimili fjármögnuðu sig í erlendum myntum á mun lægri vöxtum en þekktust hér á landi. Á þessu hefur verið tekið með ýmsum hömlum en nær væri að ráðast að rótum vandans og innleiða nauðsynlegar og tímabærar umbætur í þá veru. Það er verkefni ríkisstjórnarinnar að bæta úr því og tíminn til þess er núna.

Höfundur er framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×