Skoðun

Hvað er svona merkilegt við það?

Davíð Snær Jónsson skrifar
 

Þrjú eða tíu ár. Stúdent eða sveinn. Ungur eða gamall. Mig langar að óska þér innilega til hamingju með áfangann.

Í maí mánuði útskrifuðust nemendur alls staðar að af landinu, fullir af elju og kraft til þess að ráðast fram til nýrra verkefna, með nýjar áskoranir fyrir hendi, á hinum ýmsu sviðum þjóðfélagsins. Að útskrifast er ekki sjálfgefið. Það krefst mikillar vinnu, þrautseigju og þolgæði. Sýnin var kannski ekki alltaf frýnileg og á einhverjum tímapunkti leit verkefnið út fyrir að vera ómögulegt. En eftir þessa vegferð getur þú því státað þig af því að hafa klárað verkefnið og fengið viðurkenningu fyrir, sem mun endast þér ævilangt.

Ef litið er til baka má rifja upp öll þau verkfæri sem þú fékkst afhent í framhaldsskólanum. Nú getur þú fyllt verkfæratöskuna af verkfærum og smíðað þér þitt eigið skip. Fley sem mun þeyta þér áfram í gegnum lífsins ólgusjó. Því á stórsjónum, sem getur reynst viðamikill og einfaldur í sjálfum sér, er alltaf möguleiki á því að lenda á skeri eða í brotsjó. Á þeim tímapunkti skaltu muna að „fall er fararheill“ og gefast ekki upp, alveg eins og í skólanum.

Hvert sem framhaldið verður, megi það verða þér gæfuríkt. Finndu þinn frama. Finndu þína framtíð. Og gangi þér sem allra best.

Til hamingju útskriftarnemendur.

Höfundur er formaður Sambands íslenskra framhaldsskólanema og nýstúdent.

 

 




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×