Innlent

Óvenju mikið ísrek við Jökulsárlón

Gissur Sigurðsson skrifar
Myndin var tekin í gærkvöldi á Jöklusárlóni þar sem óvenju mikið ísrek hefur verið.
Myndin var tekin í gærkvöldi á Jöklusárlóni þar sem óvenju mikið ísrek hefur verið. halli
Óvenjumikið ísrek hefur verið á Jökulsárlóni og varð ferðaþjónustufyrirtæki þar að hætta siglingum í gærkvöldi af öryggisástæðum.

Þá biðu hátt í 200 ferðamenn eftir að komast í siglingu en engin áhætta var tekin. 

Ágúst Elvarsson, rekstrarstjóri við Jökulsárlón, sagði í viðtali í hádegisfréttum Bylgjunnar að vegna ísreksins hafi ekki verið hægt að sigla í morgun. 

„Þeir eru búnir að ná að brjótast í gegnum ísinn núna og við erum að vona að það gerist á næsta hálftímanum að þeir gefi „go“ á þetta,“ sagði Ágúst.

Aðspurður hvort jakarnir væru stórir sagði Ágúst að einn og einn væri nokkuð stór inn á milli sem væri samt hægt að ýta með litlum gúmmítuðrum. 

„En mest er þetta bara íshröngl, svona 20 til 30 kílóa stykki, mjög þétt út um allt sem við þurfum að ryðja leið í gegnum.“

En það er engin hætta á að stórir jakar velti þarna með tilheyrandi busli?

„Það getur alltaf gerst en við förum bara ekki nálægt svoleiðis jökum en auðvitað getur allt gerst hérna og það er náttúrulega ástæðan fyrir því að við förum ekki nálægt svoleiðis jökum.“

Er mikil ásókn í siglingar hjá ykkur núna?

„Já, það er mjög mikið. Ætli það bíði ekki 200 manns eftir því að komast í ferð þannig að við bíðum bara spennt eftir að geta byrjað að afgreiða þau.“

Frá Jökulsárlóni í gær.halli
Hætta þurfti siglingum á lóninu í gærkvöldi út af ísnum.halli



Fleiri fréttir

Sjá meira


×