Skoðun

Á ég að gæta bróður míns?

Þórarinn Þórarinsson skrifar
Þverpólitísk fýla ríkir um niðurstöður borgarstjórnarkosninganna. Fánýtar tilraunir til þess að greina hverju kjósendur voru „að kalla eftir“ skipta þó litlu sem engu í stóra samhenginu.

Mennskan vann hins vegar óumdeildan kosningasigur þegar Reykvíkingar höfnuðu afgerandi úreltum músarholusjónarmiðum hinna þröngsýnu sem geta ekki sætt sig við að við búum í breyttum heimi.

Ísland er ekki lengur einangraður útnári á hjara veraldar heldur hluti kvikrar og síbreytilegrar veraldar. Ekkert fær stöðvað tímans þunga nið. Síst af öllum menn sem garga þvælu í gjallarhorn á götum úti og sveifla drullusokkum.

Frambjóðendum Frelsisflokksins og Þjóðfylkingarinnar og þeim 267 hræðum sem kusu þá myndi líða ögn betur í sálinni ef þau fyndu hjá sér döngun til þess að stíga úr skugga óttans.

Öll eigum við jafnan rétt til lífs og hamingju óháð því hvaðan við komum, hverju við trúum og hvernig við erum á litinn. Kærleiki í verki er líka oftast endurgoldinn í því sama. Hvað er þá að óttast?

Margt má segja um okkur sem þjóð en gestrisni og hjálpsemi er Íslendingum í blóð borin og góðu heilli gengur enn gegn innsta kjarna þjóðarsálarinnar að rétta ekki fólki í neyð hjálparhönd.

Fegurðin í því að drjúgur hluti kjósenda hafi í ofanálag tryggt hörundsdökkri, ungri, íslenskri konu sæti í borgarstjórn Reykjavíkur á meðan framboðunum tveimur var hafnað, er svo náttúrlega ljóðræn.

Fordómaflokkarnir upphefja sig ekki síst á og er tíðrætt um „kristin gildi“. Pæling að glugga bara kannski aðeins í Biblíuna og kynna sér boðskap Krists. Velta jafnvel fyrir sér sígildri spurningu úr blóði drifnum fyrri hluta bókarinnar.

Á ég að gæta bróður míns?




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×