Skoðun

Það er best að búa í Mosfellsbæ

Bryndís Haraldsdóttir skrifar
Fjölgunin hefur verið mest í Mosfellsbæ af öllum sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu, ástæðan er sú að hér er gott að búa. Viðhorfskannanir Gallup hafa sannað það ár eftir ár en hér eru íbúar almennt mjög ánægðir. Nægt framboð hefur verið að lóðum í Mosfellsbæ og tryggt er með skipulagi að byggðin sé blönduð með fjölbýlum og sérbýlum í hæfilegri blöndu.

Traust og ábyrg fjárhagsstjórn

Mosfellsbær er vel rekið sveitarfélag, þrátt fyrir mikið uppbyggingarskeið þá hefur okkur engu að síður tekist að greiða niður skuldir og hefur skuldahlutfallið farið lækkandi. Þó kennitölur og rekstrarniðurstaða sé oft minnst spennandi umræðuefni fyrir kosningar þá er það engu að síður það sem mestu máli skiptir, enda ljóst að sveitarfélagið hefur meira svigrúm til að bæta þjónustuna og draga úr skattheimtu sé það vel rekið og fjárhagurinn traustur, eins og staðan er hér í Mosfellsbæ.

Grænn og fjölskylduvænn bær.

Mosfellsbær er vel staðsett sveitarfélag innrammað af fallegum fellum ám og Leirvoginum. Tækifæri til útivistar og hreyfingar eru býsna mörg. Það er mikilvægt að við frekari uppbyggingu sé gætt að þessum dýrmætu fjársjóðum sem náttúran er okkur og tryggja að aðgengi íbúa að þeim sé sem best. 

Aðbúnaður fyrir fjölskyldur er það sem skiptir okkur mestu máli, góðir og öflugir skólar ásamt fjölbreyttu íþrótta- og tómstundastarfi. Skólarnir í Mosfellsbæ eru í fremstu röð, en stöðugt þarf að vera á tánum og tryggja góðan aðbúnað starfsfólks og nemenda. Það að efla lestrarkunnáttu er stöðugt verkefni og tryggja þarf gott aðgengi nemenda og starfsfólk að fullkomnustu tækni hverju sinni.

Höfundur er þingmaður Sjálfstæðisflokksins.




Skoðun

Sjá meira


×