Erlent

Trump og Kim funda 12. júní

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Trump og Kim Jong-un.
Donald Trump og Kim Jong-un. Vísir/AFP
Fundur Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, og Kim Jong-un, einræðisherra Norður-Kóreu, mun fara fram í Singapúr þann 12. júní. Forsetinn sagði frá þessu í tísti nú fyrir skömmu og tók hann fram að fundarins væri beðið með mikilli eftirvæntingu.

Þetta verður í fyrsta sinn sem leiðtogar ríkjanna munu hittast.

Trump kom heiminum í opna skjöldu í byrjun apríl þegar hann samþykkti fundarboð frá Norður-Kóreu, án þess að ræða við ráðgjafa sína, eftir að honum barst boðið í gegnum erindreka frá Suður-Kóreu.

Kim kom þó heiminum meira á óvart með boði sínu og viðleitni til viðræðna eftir margra ára hótanir um stríðsrekstur og hefur hann jafnvel hótað því að beita kjarnorkuvopnum sínum gegn Bandaríkjunum. Nú virðist hann tilbúinn til að láta vopn sín af hendi gegn samkomulagi um að Bandaríkin muni ekki reyna að velta honum úr sessi og niðurfellingu viðskiptaþvingana.

Opinber stjórnmálatengsl Bandaríkjanna og Norður-Kóreu eru engin og eru ríkin tæknilega í stríði sem hófst árið 1950. Fundurinn gæti leitt af sér friðarsamkomulag sem myndi einnig fela í sér viðurkenningu á einræðisstjórn Kim.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Singapúr er valið sem vettvangur viðkvæmra viðræðna en árið 2016 hittust leiðtogar Kína og Taívan þar í fyrsta sinn í rúm 60 ár. Singapúr á í nánum samskiptum við Bandaríkin og hefur lengi átt í samskiptum og viðskiptum við Norður-Kóreu. Singapúr batt þó enda á viðskiptasamband ríkjanna í nóvember í fyrra þegar refsiaðgerðir gegn Norður-Kóreu, vegna eldflauga- og kjarnorkuvopnaáætlana ríkisins, voru hertar.

Vert er að hafa í huga að ekki er langt síðan Trump og Kim voru að hóta hvorum öðrum árásum og að móðga hvorn annan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×