Erlent

Notuðu her dróna til að trufla lögregluaðgerð

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Drónar eru til margra hluta nytsamlegir.
Drónar eru til margra hluta nytsamlegir. Vísir/Getty
Lögreglan í Bandaríkjunum hefur í auknum mæli þurft að glíma við glæpamenn sem nýta sér aðstoð dróna til þess að trufla störf lögreglu. Bíræfnir gíslatökumenn nýttu sér til að mynda her dróna til þess að trufla aðgerðir gíslabjörgunarsveitar FBI í ónefndri bandarískri borg síðasta vetur.

Frá þessu er greint á vef Defense One, fjölmiðli sem sérhæfir sig í fréttum af öryggis- og löggæslumálum. Er þar vitnað í erindi Joe Mazel, yfirmanns tæknideildar FBI, á ráðstefnu í Denver á dögunum. Þar greindi hann frá umræddri lögregluaðgerð. Kom fram í máli Mazel að þetta væri dæmi um hvernig glæpamenn eru í auknum mæli farnir að nýta sér dróna til þess að fylgjast með og hafa áhrif á störf lögreglu.

Sökum þess hve málið væri viðkvæmt fyrir FBI vildi Mazel ekki gefa upp nákvæmlega í hvaða borg eða nákvæmlega hvenær lögregluaðgerðina átti sér stað. Gat hann þó sagt frá því hvernig drónarnir voru nýttir.

Lögregluaðgerðin snerist um að bjarga gíslum frá glæpamönnunum og til þess var meðal annars settur upp skoðunarstaður svo hægt væri að fylgjast með og stýra aðgerðum björgunarsveitarinnar.

Skömmu síðar heyrðist suð allt í kringum lögreglumennina og í ljós kom að glæpamennirnir höfðu komið fyrir miklum fjölda dróna á svæðinu. Flugu drónarnir allt í kringum lögreglumennina á miklum hraða sem gerði það að verkum að nánast ógerlegt reyndist að fylgjast með glæpamönnunum.

Það sama er þó ekki hægt að segja um glæpamennina sjálfa en auk þess sem að drónarnir trufluðu störf lögreglumannanna voru myndavélar á þeim sem sendu myndskeið til baka til glæpamannanna sem gátu þá fylgst með aðgerðum lögreglu gegn þeim í rauntíma.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×