Skoðun

Hættulegt fyrir umhverfið og lífríkið

Jón Kaldal skrifar
Það er kunnuglegt stef að það fólk sem stígur fram til varnar náttúru og lífríki Íslands þarf iðulega að sitja undir persónulegum árásum og illmælgi. Ómar Ragnarsson fékk að kenna á slíkum meðulum þegar hann gerðist málsvari hálendisins og Tómas Guðbjartsson læknir hefur þurft að sæta sömu meðferð vegna sinnar stórmerkilegu umhverfisbaráttu.

Gunnar Steinn Gunnarsson er á þessum slóðum hér í blaðinu í gær þegar hann veitist að félaga mínum, Ingólfi Ásgeirssyni, stofnanda The Icelandic Wildlife Fund.

Gunnar kynnir sig til leiks sem líffræðing en lætur þess ógetið að hann hefur verið viðriðinn laxeldi í áratugi og starfar nú sem framleiðslustjóri fiskeldisfyrirtækisins Laxa. Gunnar skammast yfir starfi Ingólfs sem flugstjóra, en þó eru flugvélar nógu góðar til að fljúga með afurðir fyrirtækis hans á erlendan markað. Þetta er sorglegur tvískinnungur og dæmi um ógöngur sem menn rata í þegar þeir hafa veikan málstað að verja.

Grein Gunnars er þar að auki uppfull af ýmsum rangfærslum um ógnina af erfðablöndun eldislax við villta stofna. Sú ógn hefur þegar raungerst í Noregi þar sem 66 prósent villtra stofna hafa skaðast.

Kjarni málsins er að tæknin, sem fyrirtæki Gunnars og önnur sjókvía­eldisfyrirtæki nota, er hættuleg náttúru og lífríki. Sjókvíar eru bara netapokar í sjó. Þetta er svo frumstæð og ófullkomin tækni að það sleppur alltaf fiskur úr kvíunum. Spurningin er bara hvenær og í hve miklu magni.

Mengunin frá þeim er líka hroðaleg. Skólpið streymir beint frá þeim í sjóinn. Í hverri kví eru um 200 þúsund fiskar. Á botninum fyrir neðan þær myndast fjöll af rotnandi fóður­afgöngum og saur.

Og það er meira. Aðbúnaður eldisdýranna er hræðilegur í sjókvíunum eins og við höfum því miður hrikaleg ný dæmi um úr íslensku eldi, bæði fyrir vestan og austan. Í rekstraráætlunum fiskeldisfyrirtækja er beinlínis gert ráð fyrir að 20 prósent eldisdýranna lifi ekki af aðbúnaðinn í kvíunum. Það er grátlegur vitnisburður um þennan iðnað.

Það þarf að fara með fiskeldi upp á land. Þar er staðan allt önnur. Skólpið er hreinsað, hægt er að stýra hitastigi í kerjunum þannig að fiskurinn strádrepst ekki úr kulda og svo stafar villtum laxastofnum ekki hætta af fiski sem er alinn á landi, fremur en öðrum lífverum í hafinu.

Auðvitað eigum við að taka höndum saman um eldisaðferðir sem eru betri fyrir umhverfið, lífríkið og eldisdýrin sjálf.

Annað er stórkostleg tímaskekkja.

Höfundur er blaðamaður og félagi í The Icelandic Wildlife Fund




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×