Innlent

Fjöldahandtökur við Sólheima

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Fimm ungmenni voru flutt í fangageymsluna á Hverfisgötu.
Fimm ungmenni voru flutt í fangageymsluna á Hverfisgötu. Vísir/eyþór
Fimm ungmenni voru handtekin í gærkvöldi eftir að lögreglu barst tilkynning um líkamsárás við Sólheima í Reykjavík. Þau eru talin hafa veist að einstaklingi sem sagður er vera með áverka víða á líkamanum eftir viðskipti sín við ungmennin, til að mynda á höfðinu. Ekki er þó vitað á þessari stundu hversu alvarlegir þessir áverkar eru.

Ungmennin voru flutt í fangageymslu lögreglunnar þar sem þau hafa mátt dúsa síðan á sjöunda tímanum í gærkvöldi. Þau eru sögð hafa verið í annarlegu ástandi en ekki fylgir sögunni hver upptök átakanna voru eða hver aldur ungmennanna er.

Lögreglan þurfti jafnframt að bregðast við margvíslegum umferðarlagabrotum í gærkvöldi. Til að mynda ollu þrír ökumenn, sem allir eru taldir hafa verið undir áhrifum vímuefna, eignatjóni vítt og breitt um höfuðborgarsvæðið. Einn þeirra hafði ekið gegn umferð og á aðra bifreið, annar ók á umferðarskilti og sá þriðju keyrði utan í vegg og reyndi síðan að stinga af. 

Þessi síðastnefndi er einnig sagður hafa verið próflaus, hafa stolið bifreiðinni sem hann ók og þá er hann sagður hafa geymt vopn í bílnum. Allir ökumennirnir þrír voru fluttir í fangageymslu þar sem þeir hafa fengið að sofa úr sér vímuna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×