Viðskipti innlent

Gray Line segir upp bílstjórum og fækkar ferðum

Sigurgeir Ingi Þorkelsson Eyvinds skrifar
Þórir Garðarsson er einnig varaformaður stjórnar Samtaka ferðaþjónustunnar.
Þórir Garðarsson er einnig varaformaður stjórnar Samtaka ferðaþjónustunnar. Visir / aðsend
Fyrirtækið Gray Line hefur sagt upp nokkrum af bílstjórum sínum og mun fækka ferðum í sumar.

Í samtali við Vísi sagði Þórir Garðarsson, stjórnarformaður Grayline, að uppsagnirnar væru vegna samdráttar. Þórir segir þessa stöðu ekki hafa verið uppi hjá fyrirtækinu áður en þar starfa um 300 starfsmenn.

Samkvæmt heimildum Vísis ná breytingarnar til rúmlega tíu starfsmanna. Þórir var ekki tilbúinn til að tjá sig um fjöldann heldur sagði hann að nánari upplýsingar um endurskipulagningu innan fyrirtækisins yrðu kynntar í næstu viku.

Greint var frá því í ágúst á síðasta ári að Gray Line myndi sameinast Iceland Travel, dótturfélagi Icelandair Group. Seint í október var svo send út fréttatilkynning um að samruninn myndi ekki ganga eftir.

Í upphafi árs var svo greint frá því að Gray Line myndi missa stæði sín við komusal Leifsstöðvar eftir að bæði Hópbílar og Kynnisferðir buðu hærra. Gray Line tilkynnti í kjölfarið að fyrirtækið hyggðist kæra Isavia, rekstraraðila Leifsstöðvar, fyrir ofurgjaldtöku og misnotkun á einokunarstöðu sinni.

 


Tengdar fréttir

Rútufargjöld til Keflavíkurflugvallar gætu hækkað um allt að fjórðung

Rútufargjöld til og frá Keflavíkurflugvelli gætu hækkað um allt að fjórðung á næstu mánuðum vegna útboðs á eftirsóttum stæðum við flugvöllinn og aukinnar gjaldtöku. Framkvæmdastjóri viðskiptasviðs hjá ISAVIA segir plássleysi koma í veg fyrir að hægt sé að bjóða upp á fleiri stæði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×