Erlent

Banna pálmaolíu í vörum Iceland af umhverfisástæðum

Kjartan Kjartansson skrifar
Iceland sérhæfir sig í frosnum vörum. Ekki verður lengur pálmaolía í vörum sem eru merktar keðjunni.
Iceland sérhæfir sig í frosnum vörum. Ekki verður lengur pálmaolía í vörum sem eru merktar keðjunni. Vísir/Getty
Breska verslanakeðjan Iceland hefur ákveðið að hætta að nota pálmaolíu í vörum sem eru merktar keðjunni fyrir árslok. Pálmaolía er í meira en helmingi allra vara sem bera vörumerki Iceland en framleiðsla hennar veldur stórfelldri eyðingu regnskóga í Asíu. Breytingin mun ná til verslana Iceland á Íslandi.

Herferð Grænfriðunga vakti athygli stjórnenda Iceland á skaðsemi pálmaolíunnar fyrir náttúruna, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC. Richard Walker, framkvæmdastjóri Iceland, segir að raunverulega vistvæn pálmaolía sé ekki til.

Bann verslunarinnar nær hins vegar aðeins til vara sem eru seldar undir vörumerki keðjunnar sjálfrar. Enn verður boðið upp á vörur annarra framleiðenda sem innihalda pálmaolíu. Iceland er engu að síður fyrsta stóra breska verslunarkeðjan sem bannar pálmaolíu á einhvern hátt.

Pálmaolía er notuð í gríðarlegum fjölda neytendavara, jafnt í kexkökum sem í sápu og snyrtivörum. Evrópusambandið samþykkti reglugerð árið 2014 um að merkja þyrfti vörur með pálmaolíu sérstaklega.

Sigurður Karlsson, framkvæmdastjóri matvörusviðs Basko sem rekur verslanir Iceland á Íslandi, segir við Vísi að bannið við pálmaolíu skili sér til Íslands í þeim vörum sem verslanirnar hér kaupa inn frá Iceland og innihalda ekki lengur pálmaolíu.

Náttúruverndarsvæði á Indónesíu þar sem skógur hefur verið brenndur til þess að rýma til fyrir pálmaolíuframleiðslu.Vísir/AFP

Meiriháttar losun gróðurhúsalofttegunda og loftmengun

Regnskógar hafa verið ruddir í stórum stíl í Asíulöndum eins og Indónesíu til að búa til pláss fyrir pálmaræktun. Áætlað er að 8% allrar skógareyðingar á jörðinni frá 1990 til 2008 hafi átt sér stað vegna framleiðslu pálmaolíu.

Eyðing skóganna er stór uppspretta gróðurhúsalofttegunda sem valda loftslagsbreytingum á jörðinni. Gríðarlegt magn gróðurhúsalofttegunda losnar jafnframt úr mó í jörðu þegar skógarnir eru brenndir.

Auk áhrifanna á loftslag jarðar valda eldar til að ryðja skóga griðarlegri loftmengun í Asíu. Með eyðingu skóganna hverfur einnig búsvæði dýrategunda eins og órangútana.

Talsmenn Iceland segja að bannið við pálmaolíu í vörum keðjunnar hafi kostnað í för með sér en þeim kostnaði verði ekki velt út í verðlag í verslununum.

„Það verður viðbótarkostnaður en við teljum að það sé það rétta að gera,“ segir Walker við BBC.

Fréttin hefur verið uppfærð með upplýsingum frá rekstraraðila Iceland á Íslandi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×