Erlent

Lögreglumenn reknir í Argentínu eftir að hafa fullyrt að mýs hefðu étið hálft tonn af kannabisefnum

Birgir Olgeirsson skrifar
Samkvæmt skráningu lögreglunnar áttu 6.000 kíló af kannabisefnum að vera í geymslunni en aðeins 5.460 kíló fundust.
Samkvæmt skráningu lögreglunnar áttu 6.000 kíló af kannabisefnum að vera í geymslunni en aðeins 5.460 kíló fundust. Vísir/Getty
Átta argentínskum lögreglumönnum hefur verið vikið úr starfi eftir að þeir héldu því fram að mýs hefðu étið hálft tonn af kannabisefnum sem höfðu horfið úr geymslu lögreglunnar.

Greint er frá þessu á vef breska dagblaðsins The Guradian en málið komst upp við skoðun á geymslu lögreglunnar í borgarinnar Pilar sem er í sextíu kílómetra fjarlægð frá höfuðborg Argentínu, Buenos Aires.

Samkvæmt skráningu lögreglunnar áttu 6.000 kíló af kannabisefnum að vera í geymslunni en aðeins 5.460 kíló fundust.

Grunur beindist strax að fyrrverandi lögreglustjóra borgarinnar, Javier Specia, sem lagði ekki nafn sitt við birgðatalningu þegar hann lét af störfum í apríl í fyrra líkt og reglur gera ráð fyrir.

Eftirmaður hans, Emilio Portero, uppgötvaði þennan skort og lét innra eftirlit vita sem rannsakaði geymsluna.

Málið rataði fyrir dómara en þar héldu Specia og undirmenn hans því fram að mýs hefðu étið kannabisefnin.

Sérfræðingar sem voru kallaðir til töldu þá skýringu nánast ómögulega og sögðu litlar líkur á að nagdýr myndi telja kannabisefni vera fæðu. Ef sú væri rauninni þá hefði þurft ansi margar mýs til að torga hálfu tonni af kannabisefnum.

Ummerkin yrðu nokkuð greinileg að mati sérfræðinganna því hræin hefðu átt að liggja á víð og dreif um geymsluna vegna þess að mýsnar hefðu drepist við að leggja sér slík efni til munns í svo miklu mæli.

Réttarhöldunum verður framhaldið í maí en The Guardian segir dómarann ætla að fá úr því skorið hvort ásetningur eða vanræksla sé ástæða þess að efnin hurfu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×