Enski boltinn

Lögreglan í Liverpool safnar nú myndböndum af rútuárásinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það voru margir að mynda.
Það voru margir að mynda. Vísir/Getty
Fólk sem tók upp myndband af rútuárásinni í Liverpool á miðvikudagskvöldið gæti aðstoðað við rannsókn málsins. Lögreglan treystir á að fá þá hjálp.

Dósum, flöskum og eldblysum var kastað í rútu leikmanna Manchester City á leið á leikinn við Liverpool á Anfield á miðvikudagskvöldið og nú leitar lögreglan í Liverpool að frekari sönnunargögnum.

Manuel Estiarte, aðstoðarþjálfari Manchester City, tók upp myndband innan úr rútunni, þegar stuðningsmenn Liverpool réðust á rútuna, en það myndband er ekki nóg.





Lögreglan í Liverpool leitar aftur til fólks sem var á svæðinu og tók upp myndbönd af vitleysingunum sem köstuðu hlutum í Manchester City rúðuna.

Leikmenn Manchester City sluppu ómeiddir úr þessari árás stuðningsmanna Liverpool á rútuna en rútan var aftur á móti úr leik. City-liðið þurfti þannig aðra rútu til að fara til baka.

Liverpool baðst strax afsökunar á hegðun stuðningsmanna sinna og Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, sagðist ekki skilja hvernig svona gæti gerst hjá svo virtu félagi.





City-rútan slapp ósködduð til baka frá Anfield. Stuðningsmenn Liverpool voru nefnilega með hugann við annað eftir leik enda að fagna glæsilegum 3-0 sigri og því að liðið væri komið í dauðafæri að komast í undanúrslit Meistaradeildarinnar.

Það urðu samt meiðsli á fólki því tveir lögreglumenn slösuðust við það að reyna að hafa stjórn á æstum stuðningsmönnum Liverpool.

Knattspyrnusamband Evrópu, UEFA, hefur kært Liverpool fyrir fjögur brot í tengslum við hegðun þeirra á miðvikudagskvöldið en mun ekki taka málið fyrir fyrr en 31. maí eða eftir þetta Meistaradeildartímabil.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×