Viðskipti innlent

Afar mjótt á munum þegar Bjarnheiður var kjörin nýr formaður Samtaka ferðaþjónustunnar

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Bjarnheiður Hallsdóttir.
Bjarnheiður Hallsdóttir.
Bjarnheiður Hallsdóttir, framkvæmdastjóri Kötlu DMI ehf., er nýr formaður Samtaka ferðaþjónustunnar en kosningu lauk í hádeginu og var munur með minnsta móti. Bjarnheiður hlaut 44,72% atkvæða gegn 44,62% Þóris Garðarssonar, stjórnarformanns Gray Line.

Margeir Vilhjálmsson, framkvæmdastjóri bílaleigunnar Geysis, fékk 10,65% atkvæða.

Aðeins munaði 72 atkvæðum á efstu tveimur sætunum en alls voru greidd 32.062 atkvæði. Fráfarandi formaður er Grímur Sæmundsen sem nú lætur af embætti. Helga Árnadóttir framkvæmdastjóri hefur sömuleiðis nýlega tilkynnt um starfslok sín en hún mun ganga til liðs við Bláa lónið þann 1. júní þar sem Grímur er forstjóri.

Að neðan má sjá kynningu Bjarnheiðar á vef SAF frá því í vikunni.

Kæru félagar í Samtökum ferðaþjónustunnar

Á þeim þremur áratugum sem ég hef starfað í ferðaþjónustu hef ég fylgst af áhuga með ævintýralegum og sögulegum framgangi hennar og þróun – upp í það að vera nú stærsta útflutningsgrein þjóðarinnar. Þau eru óteljandi úrlausnarefnin sem ferðaþjónusta á Íslandi stendur frammi fyrir um þessar mundir og hagsmunamálin sem standa þarf vörð um mörg. Má þar nefna gjaldtöku- og skattheimtumál, samgöngumál, náttúruvernd og umhverfismál. Þar þarf rödd fyrirtækjanna í greininni að vera fastmótuð og skýr. Eitt mikilvægasta verkefnið og undirstaða alls hins er að rannsóknir og kannanir sem lúta að ferðaþjónustu verði stórefldar. Að halda Íslendingum í liði með ferðaþjónustunni er sömuleiðis mjög aðkallandi verkefni í augnablikinu. Það er brýnt að verkefnin verði leyst með þekkingu og reynslu í farteskinu og ekki síður af fagmennsku og með langtímahugsun að leiðarljósi. Þar spila Samtök ferðaþjónustunnar lykilhlutverk, bæði hvað varðar innra starf og í samvinnu við stjórnvöld og íslensku þjóðina. Mig langar að leggja mitt af mörkum við að efla samtökin enn frekar og við verkefnin sem framundan eru og býð því fram krafta mína til formennsku SAF.

Ferðaþjónusta er bæði starfið mitt og helsta áhugamál. Ég hef alla mína starfsævi unnið við ferðaþjónustu og fengið tækifæri til að kynnast henni frá mörgum ólíkum hliðum. Sem dæmi má nefna stefnumótunarverkefni fyrir landshluta og bæjarfélög, auk kennslu í Ferðamálaskóla MK og Háskóla Íslands um árabil.

Mitt aðalstarf hefur þó alltaf verið við ferðaskipulagningu og ferðaheildsölu Íslandsferða og síðan árið 1997 í eigin rekstri, í fyrirtækjunum Katla Travel GmbH, Viator Summerhouses GmbH og Katla DMI ehf. Í dag starfa ég sem framkvæmdastjóri þess síðastnefnda. Við vinnum með öllum tegundum ferðaþjónustufyrirtækja um land allt og þekkjum því vel þær áskoranir sem þau standa frammi fyrir hverju sinni.

Ég hef tekið virkan þátt í starfsemi SAF í gegnum árin, hef verið í Ferðaskrifstofunefnd og hef setið í stjórn Rannsóknarmiðstöðvar Ferðamála fyrir hönd SAF síðastliðin 6 ár.

Ég er fædd og uppalin á Akranesi, þar sem ég er búsett í dag. Ég lauk stúdentsprófi frá Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi og háskólaprófi í stjórnun ferðaþjónustufyrirtækja (Dipl. Betriebswirt) frá Fachhochshule München í Þýskalandi.

 

Bjarnheiður Hallsdóttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×