Erlent

Tortímandinn ætlar að stefna olíurisum fyrir manndráp með loftslagsbreytingum

Kjartan Kjartansson skrifar
Schwarzenegger ætlar einnig að standa fyrir stórri umhverfisráðstefnu í Vín í maí.
Schwarzenegger ætlar einnig að standa fyrir stórri umhverfisráðstefnu í Vín í maí. Vísir/AFP
Arnold Schwarzenegger, fyrrverandi ríkisstjóri Kaliforníu, segist undirbúa málsókn gegn stórum olíufyrirtækjum. Hann sakar þau um að valda vísvitandi dauða fjölda fólks um allan heim með því að valda loftslagsbreytingum á jörðinni.

Frá þessu greindi Schwarzenegger á kvikmyndahátíðinni South by Southwest í Texas um helgina. Schwarzenegger er einn örfárra repúblikana í Bandaríkjunum sem hefur verið ötull talsmaður aðgerða í loftslagsmálum.

Hann segist vinna með nokkrum lögmannsstofum að málsókninni og opinberri herferð í tengslum við hana. Líkir hann olíuiðnaðinum nú við tóbaksiðnaðinn á seinni hluta 20. aldar. Tóbaksiðnaðurinn hafi vitað í fleiri áratugi að reykingar yllu krabbameini en földu það fyrir almenningi og höfnuðu rannsóknum sem bentu til þess. Á endanum hafi þau neyðst til að greiða hundruð milljóna dollara í skaðabætur.

„Olíufyrirtækin vissu frá 1959, þau gerðu sínar eigin rannsóknir um að það yrði hnattræn hlýnun vegna jarðefnaeldsneytis, og til viðbótar að það yrði hættulegt lífi fólks, að það myndi valda dauða,“ sagði Schwarzenegger sem ekki síst þekktur fyrir túlkun sína á „Tortímandanum“ í samnefndri kvikmynd.

Vísindamenn spá því að meðalhiti jarðar muni hækka um allt frá 2-5°C á þessari öld miðað við tímabilið fyrir iðnbyltingu. Orsökin er stórfelld losun manna á gróðurhúsalofttegundum, fyrst og fremst með bruna á jarðefnaeldsneyti; kolum, olíu og gasi.

Líkt og sígarettupakkar vill Schwarzenegger að viðvörunarmerki verði á bensínstöðvum og bílum um skaðleg áhrif jarðefnaeldsneytis, að því er segir í frétt Politico.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×