Körfubolti

Brynjar hættur í landsliðinu

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Brynjar í leik með landsliðinu á Eurobasket í Finnlandi.
Brynjar í leik með landsliðinu á Eurobasket í Finnlandi. vísir/ernir
Brynjar Þór Björnsson hefur lagt landsliðsskóna á hilluna. Þetta staðfesti hann í samtali við RÚV í dag.

Brynjar gaf ekki kost á sér í leik íslenska landsliðsins við Finna og Tékka í Laugardagshöllinni um helgina og hefur nú staðfest að hann sé hættur að leika með landsliðinu.

„Brynjar gefur ekki kost á sér og leið eftir síðasta glugga að hans tími væri kominn. Hann var búinn að ákveða það fyrir löngu síðan,“ sagði Finnur Freyr Stefánsson, þjálfari KR og aðstoðarþjálfari landsliðsins, í viðtali við Vísi á sunnudaginn.

Mátti af því ráða að landsliðsskór Brynjars væru komnir upp í hillu sem hann hefur nú staðfest.

Brynjar er 29 ára og er fyrirliði KR í Domino's deildinni. Hann segir ástæðuna vera að hann vilji víkja fyrir yngri leikmönnum, en hans hlutverk hefur farið minnkandi í síðustu verkefnum landsliðsins.

Hann lék sinn fyrsta landsleik árið 2007 og hefur síðan leikið 68 leiki fyrir Ísland.

Brynjar er annar landsliðsmaðurinn á tveimur dögum til að tilkynna um að skórnir séu komnir upp í hillu. Logi Gunnarsson leikur sína síðustu landsleiki um helgina en hann fór yfir ferilinn í ítarlegu viðtali á Vísi í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×