Hannes S. Jónsson, verður í leyfi frá störfum fram yfir Alþingiskosningarnar 30. nóvember en hann er í framboði fyrir Samfylkinguna. Þetta kemur fram á heimasíðu KKÍ.
Hannes verður í öðru sæti á framboðslista Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi.
Nóvember er ekki bara stór mánuður í íslenskum stjórnmálum í ár því hann er einnig viðburðaríkur fyrir íslenskan körfubolta. Auk þess að leiknar séu umferðir í Bónus deildunum þá eru bæði landsliðin einnig að spila í undankeppni EM.
Kvennalandsliðið spilar tvo heimaleiki á næstu dögum, 7. nóvember við Slóvakíu og 10. nóvember við Rúmeníu.
Karlalandsliðið spilar heimaleik á móti Ítalíu 22. nóvember og útileik við Ítalana þremur dögum síðar.
Guðbjörg Norðfjörð Elíasdóttir, formaður, verður í forsvari fyrir sambandið á meðan Hannes er í leyfi og Sigrún Ragnarsdóttir, skrifstofustjóri, mun stýra verkefnum skrifstofu sem staðgengill framkvæmdastjóra.