Innlent

Stund milli stríða en von á ofsaveðri suðaustanlands í kvöld

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Ferðamenn náðu góðum myndum á Reykjavíkurtjörn.
Ferðamenn náðu góðum myndum á Reykjavíkurtjörn. Fréttablaðið/Stefán
Höfuðborgarbúar fengu ágætan veðurdag í gær eftir talsverð umbrot í veðrinu í vikunni. Það sígur þó verulega aftur á ógæfuhliðina í þessum efnum fyrir landsmenn strax í dag ef marka má spár Veðurstofu Íslands. Vegagerðin boðar lokanir vega.

Fyrir hádegi í dag er gert ráð fyrir norðaustanátt, hvassviðri og snjókomu á Austurlandi og norðan- og norðvestanlands eftir hádegi. Þá segir á vef Veðurstofunnar að síðdegis verði vaxandi norðvestanátt með snjókomu suðvestan- og vestanlands og hvassviðri eða stormur en rok syðst og jafnvel ofsaveður á Suðausturlandi í kvöld.

Vegagerðin sendi í gær frá sér tilkynningu um hugsanlegar fyrirvaralausar lokanir vega í dag. Til dæmis segir að líklegt sé að verulegar truflanir verði á Reykjanesbraut milli klukkan 15.00 og 18.00 og á Hellisheiði, Mosfellsheiði og Lyngdalsheiði frá klukkan sex á laugardagsmorgun fram til klukkan eitt í nótt. Truflanir gætu orðið á Suðurlandi og á Suðausturlandi strax frá því á miðnætti í gærkvöldi. Þá er getið um yfirvofandi truflanir á Héraði, Eyjafirði, Skagafirði, Borgarfirði, Dölum, Snæfellsnesi og Vestfjörðum.




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×