Innlent

Léttir til síðdegis: „Svo er það bara næsta lægð í fyrramálið“

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Vindaspá Veðurstofu Íslands fyrir morgundaginn.
Vindaspá Veðurstofu Íslands fyrir morgundaginn. Mynd/Veðurstofa Íslands
Nokkuð hvasst er nú á Norðvestur og Norðausturlandi sem og á Suðausturlandi og hefur fjallvegum verið lokað vegna ófærðar. Lægð er yfir landinu en útlit er fyrir þokkalegt veður í kvöld. Önnur lægð bíður þó átekta og mun koma yfir landið á morgun.

„Það er þokkalegt veður hérna suðvestan til á landinu. Það gengur á með éljum og vindurinn er ekkert hvass. Það er hins vegar hvasst fyrir norðan og austan,“ segir Haraldur Eiríksson, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands.

Hálka eða snjóþekja er á vegum á Norðurlandi og ófært á kafla fyrir austan Hvammstanga og einnig ófært á Hófaskarði. Lokað er yfir Vatnsskarð, Öxnadalsheiði og í Víkurskarði vegna óveðurs. Vegagerðin hefur einnig virkjað óvissustig á Hellisheiði og Þrengslum og er verið að meta hvort þurfi að loka þar.

Þá bendir lögreglan á Suðurlandi á að mikil hálka sé á vegum í kringum Höfn en þar eru björgunarsveitir í útköllum að aðstoða bændur og vegfarendur. Hafa nokkrir bílar fokið út af þjóðvegi 1 vestan Nesja, án slysa. Biður lögregla að fylgjast vel með færð á vegum og veðri eða bíða þangað til síðdegis áður en haldið er stað í umdæmi lögreglunnar.

Næsta lægð framundan en svo kemur hlé

Telur Haraldur útlit fyrir að hægt verði að opna fyrir umferð um flesta þessa vegi í dag en það fari þó allt eftir því hvernig gangi að moka, veðurfarslega séð ætti þó ekkert að koma í veg fyrir mokstur.

„Þetta kerfi færist vestur á bóginn og fer að grynnast þannig að í eftirmiðdaginn fer að lægja á landinu. Það verður hið þokkalegasta veður í kvöld en svo er það bara næsta lægð í fyrramálið.“

Henni fylgir aðallega hvassviðri í flestum landshlutum en höfuðborgarsvæðið ætti reyndar að sleppa að mestu.

„Það verður hvassast á Suður- og Suðausturlandi en stormur víða um land,“ segir Haraldur. „Það hvessir líka á Norðausturlandi en þetta er í flestum landshlutum. Það verður víðast hvar leiðindaveður á morgun. Það er ekki mikill snjór með þessu, þetta er aðallega vindur en það snjóar eitthvað á austanverðu landinu,“ segir Haraldur.

Landsmenn eru eflaust komnir með nóg af lægðunum sem dunið hafa á landinu undanfarið. Útlit er þó fyrir bjartari tíma. Lægðin sem færist yfir landið á morgun ætti að ganga niður seinnipart miðvikudags en eftir það er útlit fyrir hið þokkalegasta veður næstu tvo til þrjá daga.

Veðrið hefur leikið landsmenn grátt undanfarna daga.Vísir/Hanna
Veðurhorfur á landinu

Austan 15-23 m/s og slydda eða snjókoma með köflum, en talsvert hægari og él SV-lands. Minnkandi sunnanátt og úrkoma síðdegis. Hiti kringum frostmark, en kólnar í kvöld.

Austan 15-23 í fyrramálið, en 23-28 syðst á landinu. Lægir eftir hádegi á morgun, fyrst með suðurströndinni, allvíða austan 8-15 undir kvöld. Snjókoma, slydda eða rigning um allt land, einkum á A-verðu landinu. Hiti um og yfir frostmarki síðdegis.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á fimmtudag:

Norðaustan 8-15 á Vestfjörðum, annars austlæg eða breytileg átt 3-10. Dálítil él, en yfirleitt þurrt á SV- og V-landi. Víða frostlaust við ströndina, en vægt frost til landsins.

Á föstudag og laugardag:

Suðvestan 8-13 m/s og él, en hægari vindur og bjartviðri á N- og A-landi. Hiti rétt ofan frostmarks við S- og V-ströndina, annars frost 1 til 7 stig.

Á sunnudag:

Sunnanátt með snjókomu og síðar slyddu eða rigningu, en úrkomulítið NA-lands. Hlýnandi veður.

Á mánudag:

Sunnanátt með vætu S- og V-lands, en þurrt á NA-verðu landinu. Fremur hlýtt.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×