Guðni Th. Jóhannesson forseti sendi í dag dönsku konungsfjölskyldunni samúðarkveðjur sínar og íslensku þjóðarinnar vegna fráfalls Hinriks prins. Hinrik andaðist í Fredensborgarhöll í gærkvöldi, 83 ára að aldri.
Í tilkynningu frá skrifstofu forseta kemur fram að í kveðju sinni hafi forseti minnst góðra kynna þeirra forsetahjóna af Hinriki í opinberri heimsókn til Danmerkur í byrjun síðasta árs.
„Hann hafi verið áhugasamur, elskulegur og lifandi í viðkynningu, góður gestgjafi sem þekkti vel sögu þjóðanna og menningu og sýndi málefnum Íslands ríkan áhuga. Með Hinrik prins sé genginn mætur maður sem rækt hafi skyldur sínar í þágu dönsku þjóðarinnar af metnaði og alúð,“ segir í tilkynningunni.