Körfubolti

Stórtap í Svartfjallalandi

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Úr fyrri leik liðanna í Laugardalshöllinni í vetur
Úr fyrri leik liðanna í Laugardalshöllinni í vetur vísir/andri marinó
Íslenska kvennalandsliðið í körfubolta tapaði fyrir Svartfjallalandi ytra í kvöld í undankeppni Eurobasket kvenna 2019.

Íslensku stelpurnar stóðu vel í heimakonum framan af í leik þar sem lítið var skorað fyrstu mínúturnar. Staðan var 12-14 fyrir Íslandi eftir fyrsta leikhlutann og skoraði Helena Sverrisdóttir 11 af stigum Íslands í fjórðungnum.

Svartfellingar náðu að vinna annan leikhluta og fóru með fjögurra stiga forystu í hálfleikinn. Það var hins vegar algjört hrun hjá íslenska liðinu í þriðja leikhluta þar sem liðið skoraði aðeins þrjú stig, öll frá Helenu Sverrisdóttur á línunni. Á meðan skoruðu Svartfellingar 19 stig og var staðan orðin 54-34 í lok leikhlutans.

Íslensku stigin í fjórða leikhluta voru einnig bara 3 á móti 15 stigum Svartfjallalands og lauk leiknum með 69-37 sigri.

Helena Sverrisdóttir var lang atkvæðamest í íslenska liðinu með 22 stig, 9 fráköst og 3 stoðsendingar. Næst stigahæst var Elín Sóley Hrafnkelsdóttir með 8 stig. Dýrfinna Arnardóttir, Berglind Gunnarsdóttir og Hildur Björg Kjartansdóttir skoruðu allar eina körfu hver en fleiri leikmenn náðu ekki að skora fyrir Ísland.

Ísland hefur nú tapað öllum fjórum leikjum sínum í A riðli undankeppninnar. Næsti leikur liðsins er gegn Slóvakíu í Laugardalshöll í nóvember.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×