Skoðun

Útlendingar

María Bjarnadóttir skrifar
Ég hef verið innflytjandabarn. Það var æðislegt. Í norsku fjallaþorpi vorum við tvær, útlendingarnir. Ég, hvíta íslenska stelpan og hin, múslimskur flóttamaður undan stríðinu í Bosníu. Ég varð hratt hluti af hópnum, lærði tungumálið og komst í fótboltaliðið. Hún hins vegar náði ekki tökum á tungumálinu, varð eftir á í skólanum og einangraðist.

Mömmu hennar hitti ég oft, við unnum saman í herbergisþrifum á fínasta hótelinu í bænum. Ég vegna þess að mig langaði í Oakley sólgleraugu og Dr. Martens skó, hún vegna þess að það var enga aðra vinnu að fá fyrir verkfræðing sem var flóttamaður og talaði enga norsku.

Ég hugsaði til þeirra þegar það birtust fréttir af slöku gengi íslenskra barna í PISA-könnuninni frægu. Þegar rýnt var í niðurstöðurnar sýndu þær að það eru krakkar af erlendum uppruna sem eiga í mestum vandræðum. Það er óþolandi. Útlendingar sem vinna við herbergisþrifin eða einhvers annars staðar í virðiskeðjunni eru algert lykilfólk í íslensku hagkerfi. Þau eiga engu minni heimtingu á því að börnin þeirra fái aðbúnað og aðstoð sem þau þurfa í skólanum en aðrir foreldrar.

Ég hef verið innflytjandaforeldri. Það er erfitt. Til viðbótar við venjulegar uppeldisáhyggjur, þarf að glíma við að skilja óskrifaðar samskiptareglur og hvað sé viðeigandi varðandi barnaafmæli. Sumir hafa ekki einu sinni almennileg tök á tungumálinu. Hvernig eiga þau að sjá um heimalestur?

Það ætti að vera kappsmál fyrir sveitarfélög að tryggja þjónustu fyrir börn af erlendum uppruna. Ef ekki vegna þess að það er siðferðilega rétt, þá vegna þess að það myndi bæta PISA-niðurstöðurnar.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×