Skoðun

Hrakfarir kalla á ný vinnubrögð

Ari Trausti Guðmundsson skrifar
United Silicon, að baki hrá­kísilverinu í Helguvík, er gjaldþrota með tilheyrandi fjárhagslegu tjóni fyrir banka, lífeyrissjóð og Reykjanesbæ. Uppsagnir starfsfólks teljast líka tjón. Samtímis er ljóst að reyk-, ryk- og gasmengun mun ekki hrjá íbúa sveitarfélagsins eftir töluvert hlé – hve lengi er ekki vitað. Arion banki stefnir að því að láta ljúka viðgerðum á þessari ósamstæðu, gölluðu og hæpnu verksmiðju og hefja aftur starfsemi, væntanlega með nýjum eigendum. Kannski tekst það, kannski ekki, en telja má augljóst að frekari starfsemi með mengun yfir ströngustu mörkum er í óþökk mjög margra íbúa Reykjanesbæjar. Skal engan undra eftir það sem á undan er gengið.

Kærumál samfara gjaldþrotinu varða litlu sem engu um framtíð versins.

Fleira en mjög svo íþyngjandi mengun kemur til. Verksmiðjan er of há miðað við eðlilegar skipulagsforsendur og ljóst að nánd íbúðasvæðis við verksmiðjusvæðið í Helguvík er of mikil. Það kann að stafa af röngum upplýsingum um dreifingu mengunar í gögnum sem notuð voru við matsgerð á umhverfisáhrifum hrákísilversins.

Þessu til viðbótar vekur athygli að óháðir eftirlits- og skoðunarmenn tæknibúnaðar komu ekki að byggingu versins – væntanlega aðeins hefðbundnir sérfræðingar byggingareftirlits eins og tíðkast um stórar byggingar, svo sem varðandi burðarþol. Sérstakt tæknieftirlit á að vera regla við byggingu sérhæfðra verksmiðja. Í þessu tilviki sýnist sem starfseiningar versins hafi því miður ekki unnið rétt saman og tölvustýringar ekki heldur, rétt eins og menn reyndu að smíða gangfæran bíl úr íhlutum úr ýmsum áttum en úr verður óhönd­ug­legur, reykspúandi skrjóður.

Fari svo að lögð verði fram ósk um að gangsetja verið ber að tryggja að allar úrbætur á verksmiðjunni verði teknar út og metnar af óháðum sérfræðingum, að mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar verði endurskoðað, og endurunnið, ásamt endurgerðu starfsleyfi og að allar áætlanir um orkufrekan iðnað í Helguvík verði endurskoðaðar frá grunni. Vel má vera að starfsemi í matvælaiðaði, gagnaver og ýmis umhverfisvænn iðnaður geti stutt við rekstur Helguvíkurhafnar og fjölbreytt atvinnulíf á Suðurnesjum. Uppbygging hafnarinnar hefur að hluta verið háð uppbyggingu orkufreks iðnaðar. Nú þarf næsta örugglega að skjóta styrkari stoðum undir stækkun og rekstur hennar.

 

Höfundur er þingmaður VG í Suðurkjördæmi.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×