Skoðun

Græn Borgarlína

Skúli Helgason skrifar
Umhverfisvernd er ekki lengur bara spurning um pólitíska forgangsröðun heldur beinlínis lykill að framtíð okkar hér á jörðinni. Það er siðferðisleg skylda okkar að bregðast við loftslagsvandanum, og skaðlegum fylgifiskum hans fyrir umhverfi og náttúru. Á sama tíma geta kjarkmiklar aðgerðir á sviði umhverfismála stóraukið lífsgæði borgarbúa.

Eitt albesta dæmið um slíka aðgerð er hröð og markviss uppbygging Borgarlínu á höfuðborgarsvæðinu. Samkvæmt mannfjöldaspám má gera ráð fyrir að íbúum höfuðborgarsvæðisins muni fjölga um 70 þúsund manns fram til 2040 eða um nærri 40%. Ef 75% ferða verða áfram farin í einkabílum mun ferðatími lengjast um meira en helming og umferðatafir um 80%.

Uppbygging umferðarmannvirkja sem gætu tekið við slíkum fjölda er óhugsandi vegna himinhrópandi kostnaðar, ósjálfbærrar landnotkunar og neikvæðra umhverfisáhrifa. Reynslan erlendis kennir okkur að breikkun helstu stofnbrauta og mislæg gatnamót eru skammgóður vermir. Akreinarnar fyllast jafnharðan og vegfarendur verða jafn illa, eða verr, settir og áður.

Skynsamlegasta leiðin til að takast á við þetta verkefni er kraftmikil uppbygging almenningssamgangna. Þar er Borgarlína langáhrifaríkasta aðgerðin en hún felur í sér að komið verði upp hraðvagnakerfi á höfuðborgarsvæðinu þar sem biðtími styttist til muna niður í 5-7 mínútur á álagstímum og jafnvel allt niður í 2 mínútur ef þörf er á meiri afkastagetu. Borgarlínan verður með forgang á umferðarljósum sem mun auðvelda farþegum að komast hratt og örugglega á milli staða. Lögð verður áhersla á vandaðar yfirbyggðar biðstöðvar, með farmiðasjálfsölum og upplýsingaskiltum sem sýna í rauntíma hvenær næsti vagn kemur.

Með uppbyggingu Borgarlínu vinnst afar margt. Slíkt almenningssamgöngukerfi er hagkvæm og vistvæn leið til að auka flutningsgetu milli sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu en einnig innan þeirra. Uppbygging hennar mun gegna lykilhlutverki í uppbyggingu og þróun byggðar á höfuðborgarsvæðinu öllu. Með Borgarlínu drögum við úr mengun, styttum ferðatíma, aukum lífsgæði og byggjum upp græna borg.



Höfundur er borgarfulltrúi og frambjóðandi í 3. sæti í flokksvali Samfylkingarinnar.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×