Erlent

Norður-Kórea sakar Bandaríkin um að ljúga um hergagnasendingar

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Norður-Kóreumenn segjast við öllu búnir.
Norður-Kóreumenn segjast við öllu búnir. vísir/afp
Bandaríkjamenn senda hergögn til Kóreuskaga undir fölsku flaggi og þykjast vera að gera það vegna væntanlegra Vetrarólympíu­leika. Um þetta sakaði Han Tae Song, sendiherra Norður- Kóreu hjá Sameinuðu þjóðunum, Bandaríkjamenn á afvopnunarfundi í svissnesku borginni Genf í gær.

„Hætta er á að hergagnasendingar Bandaríkjamanna dragi úr jákvæðri þróun samskipta ríkjanna á Kóreuskaga og jafnvel leiði okkur í átt að hörðum átökum,“ bætti Han við. Sagði hann einnig að kjarnorkutilraunir síðasta árs hefðu sýnt fram á að einræðisríkið væri kjarnorkuveldi.

Norður-Kórea sprengdi sína fyrstu vetnissprengju í fyrra og hefur ítrekað hótað að ráðast á Bandaríkin, einkum á eyjuna Gvam. Tilraunir ríkisins brjóta í bága við skilyrði sem öryggisráð SÞ hefur sett Norður-Kóreumönnum. Þá er vert að taka fram að Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur hótað einræðisríkinu „eldi og brennisteini“ til baka.

„Ég get stoltur sagt frá því að Alþýðulýðveldið Kórea býr yfir kjarnorkuvopnabúri sem er hægt að beita í gagnárás gegn Bandaríkjunum og býr yfir miklum fælingarmætti sem kemur í veg fyrir að Bandaríkjamenn hefji ævintýralegt stríð.“

Robert Wood, fulltrúi Bandaríkjanna á fundinum, sagði af og frá að Bandaríkin viðurkenndu Norður-Kóreu sem kjarnorkuveldi. „Ef norðrið vill að því sé tekið aftur opnum örmum af alþjóðasamfélaginu vita yfirvöld hvað þarf að gera. Það þarf að stíga skref í átt til þess að gera Kóreuskaga algerlega kjarnorkuvopnalausan.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×