Innlent

Varhugaverðar akstursaðstæður víða

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Ökumenn ættu að vera vakandi fyrir hálku í dag.
Ökumenn ættu að vera vakandi fyrir hálku í dag. Vísir/GVA
Nú á níunda tímanum í morgun var hálka eða snjóþekja og éljagangur á velflestum vegum á Suður- og Suðvesturlandi en þæfingsfærð á Grafningum. Þá er þungfært á Krýsuvíkurvegi eins og fram kemur á vef Vegagerðirinnar. 

Þar segir jafnframt að á Vesturlandi sé hálka eða snjóþekja á flestum leiðum og þungfært á Holtavörðuheiði. Ófært sé hins vegar um Fróðárheiði.

Eins og Vísir greindi frá í morgun var veginum um Súðavíkurhlíð lokað vegna snjóflóðs. Staðan verður tekin eftir því sem líður á daginn en íbúar Vestfjarða mega gera ráð fyrir að hvessi síðar í dag. Á Vestfjörðum er þæfingsfærð og skafrenningur á Gemlufallsheiði, Hálfdán og Mikladal.

Búið er að opna vegina um Hellisheiði, Þrengsli, Mosfellsheiði og Lyngdalsheiði.

Á Norðvesturlandi er hálka eða snjóþekja á flestum leiðum. Þæfingsfærð og éljagangur er á Þverárfjalli og á Siglufjarðarvegi að sögn Vegagerðarinnar og á Norðausturlandi er hálka eða hálkublettir á flestum leiðum.

Jafnframt er hálka yfir Mývatns- og Möðrudalsöræfi og á Austurlandi er hálka meðal annars á Fjarðarheiði, Öxi og Breiðdalsheiði.

Með suðausturströndinni er svo autt frá Djúpavogi suður að Jökulsárlóni en hálkublettir eða hálka þar fyrir vestan. Þá eru hálkublettir og éljagangur á Mýrdalssandi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×