Erlent

Brýnt að uppfæra stýrikerfi þegar í stað

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Gallar í meginþorra örgjörva valda áhyggjum. Þessi mynd er sviðsett en vandinn er raunverulegur.
Gallar í meginþorra örgjörva valda áhyggjum. Þessi mynd er sviðsett en vandinn er raunverulegur. Nordicphotos/Getty
Mikilvægt er fyrir eigendur næstum hvaða tölvu eða snjallsíma sem er að uppfæra stýrikerfi sín sem allra fyrst, það er að segja ef slíkar uppfærslur hafa verið gefnar út. Ættu þeir sem nota Windows, Android, ChromeOS eða stýrikerfi Apple því til að mynda að huga að uppfærslum. Ástæðan er sú að alvarlegir öryggisgallar finnast í nærri öllum nýjum örgjörvum.

Þessir öryggisgallar hafa verið nýttir í svokallaðar Meltdown- og Spectre-árásir. Fyrrnefnd árás er þó einungis möguleg sé örgjörvinn úr smiðju Apple eða Intel, ekki AMD. „Gallarnir eru fólgnir í útfærslu á svokallaðri „speculative execution“ tækni sem er notuð til að auka vinnsluhraða nútíma örgjörva,“ segir í tilkynningu íslensku netöryggissveitarinnar CERT-ÍS.

Í tilkynningunni er mælt með því að notendur fylgist með nýjum öryggisuppfærslum og uppfæri sem fyrst. Hugbúnaðaruppfærslur séu eina þekkta mótvægisaðgerðin gegn bæði Meltdown og Spectre.

„Árásirnar keyra sem notendaforrit á tölvunni sem ráðist er á. Til dæmis með því að blekkja notandann til að keyra spillikóða. Því er vert að benda á góðar venjur við umgengni tölvukerfa, sem sagt uppfæra varnir (meðal annars vírusvarnir) og forðast að keyra óþekkt forrit. Einnig er mögulegt að útfæra spillikóðann á vefsíðu, til dæmis sem JavaScript, þannig að heimsókn á spillt vefsvæði gæti valdið skaða,“ segir enn fremur í tilkynningu CERT-ÍS. Báðar árásirnar miða að því að stela upplýsingum.

Hin fyrrnefnda „speculative exe­cution“ tækni er fólgin í því að örgjörvar giska á nokkrar mögulegar aðgerðaslóðir og keyra samhliða til að flýta vinnslu sinni. Að öllu öðru óbreyttu er röngu slóðinni síðan eytt. Við þetta getur vinnslutími sparast. Örgjörvar Intel og Apple sem nýta þessa tækni aðgreina hins vegar ekki minnissvæði stýrikerfisins og notendaforrita. Er því hægt að þvinga örgjörvann til að vinna of lengi á ágiskaðri slóð og sækja þannig gögn í minni sem viðkomandi ferli á ekki að hafa aðgang að.

Að mati Jane Wakefield, tækniblaðamanns BBC, eru áhyggjur þó óþarfar, uppfæri maður stýrikerfi sín og smelli ekki á ókunnuga hlekki. „Hægt er að ráðast á hvaða tölvu sem er sem er með örgjörva sem hefur þennan galla. Hins vegar er talsvert líklegra að ráðist verði á fyrirtæki en einstaklinga.“




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×