Erlent

Nethlutleysi afnumið gegn vilja fólksins

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Afnáminu var mótmælt við höfuðstöðvar FCC.
Afnáminu var mótmælt við höfuðstöðvar FCC. Nordicphotos/AFP
Stjórn Fjarskiptastofnunnar Bandaríkjanna (FCC) ákvað í gær að afnema reglur um nethlutleysi. Reglurnar voru settar árið 2015 í forsetatíð Baracks Obama og fela í sér að netþjónustuaðilar verði að meðhöndla umferð um netið með sama hætti óháð uppruna og áfangastað.

Hafa andstæðingar afnámsins haldið því fram að jafn og hlutlaus aðgangur að netinu teljist til mannréttinda. Með afnámi opnist sá möguleiki að netþjónustufyrirtæki geti hægt á tengingum við ákveðið efni og selt hraðari aðgang á okurverði. Jafnframt geri afnámið téðum fyrirtækjum kleift að rukka vefsíður fyrir að hægja ekki á tengingu neytenda við þær.

Ajit Pai, stjórnarformaður FCC.Nordicphotos/afp
Stóru netþjónustufyrirtækin í Bandaríkjunum hafa þrýst á afnámið undanfarið. Sama er hins vegar ekki að segja um almenning en samkvæmt nýrri könnun Mary­land-háskóla eru 83 prósent andvíg afnáminu. Sé litið til Repúblikana, en fulltrúar þeirra mynduðu þann meirihluta sem þurfti til að afnema reglurnar, eru 75 prósent andvíg afnáminu.

Stjórnarmennirnir og Demókratarnir Jessica Rosenworcel og Mignon­ Clyborn greiddu atkvæði gegn afnáminu. Sagði Clyburn að með því væri verið að draga tennurnar úr fjarskiptastofnun. „Með þessu erum við að afhenda milljarðamæringum lyklana að internetinu, einni merkilegustu og mest vald­eflandi uppfinningu okkar tíma.“ 

„Nethlutleysi er netfrelsi. Ég styð það frelsi. Ég er á móti þessari fljótfærnislegu ákvörðun,“ sagði Rosenworcel. Enn fremur sagði hún allt ferlið sem leiddi að fundi gærdagsins gjörspillt.

Ajit Pai stjórnarformaður var á öðru máli og greiddi atkvæði með afnámstillögunni. „Helsta umkvörtunarefni neytenda þegar kemur að internetinu hefur aldrei verið að netþjónustufyrirtæki hindri eða hamli aðgangi að efni. Þeir hafa kvartað yfir því að þeir hafi alls engan aðgang að internetinu eða að samkeppni sé ekki nægilega mikil.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×