Erlent

Hættir í Transparent eftir ásakanir um áreitni

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Jeffrey Tambor sést hér á Clio-verðlaunahátíðinni í upphafi mánaðarins.
Jeffrey Tambor sést hér á Clio-verðlaunahátíðinni í upphafi mánaðarins. Vísir/Getty

Emmyverðlaunahafinn Jeffrey Tambor mun ekki leika í næstu þáttaröð Transparent í kjölfar tveggja ásakana um kynferðislega áreitni á tökustað. Leikarinn þvertekur fyrir ásakanirnar.

„Að hafa fengið að leika Maura Pfefferman í Transparent hafa verið einhver stærstu forréttindi og mesta listræna upplifun lífs míns,“ segir Tambor í samtali við Deadline sem greindi fyrst frá málinu í gær.

„Á síðustu vikum hefur þó komið í ljós að þetta er ekki lengur starfið sem ég tók að mér fyrir fjórum árum síðan.“

Fyrstu fregnir af áreitnini birtust í miðlum vestanhafs í síðustu viku. Í grein Deadline er miklu púðri varið í orðróma þess efnis að til hafi staðið að skrifa persónu Tambor, transkonuna Mauru, út úr þáttunum áður en ásakanirnar komu fram. Þá er ýjað að því að brotthvarf Tambor geti orðið til þess að ráðist verði í gerð fimmtu þáttaraðar Transparent - sem ekki hafi staðið til áður. Aðstandendur þáttanna hafa ekki tjáð sig um málið.

Eitt líkamlegt atvik

Tambor er gefið að sök að hafa ítrekað klæmst við samstarfsmenn sína og látið ótal kynferðisleg ummæli falla á tökustað. Þá á eitt tilfelli, í garð leikkonunnar Trace Lysette, að hafa verið „líkamlegt,“ án þess að það sé útskýrt nánar. „Ég veit að ég er ekki auðveldasti maðurinn til að vinna með. Ég get stundum verið viðkvæmur, ég á til að snöggreiðast og alltof oft hreyti ég einhverju út úr mér. En ég hef aldrei verið níðingur - nokkurn tímann,“ segir Tambor í samtali við Deadline.

Handritshöfundur Transparent hefur hrósað þolendunum fyrir hugrekki sitt. „Við megum ekki láta trans-efni líða fyrir gjörðir eins cis-karlmanns,“ er haft eftir Our Lady J.

Gert er ráð fyrir því að næsta þáttaröð Transparent verði sýnd á streymisveitu Amazon á næsta ári. Transparent-þættirnir hafa jafnframt verið sýndir á Stöð 2 undanfarin ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×