Innlent

Búist við tíu stiga hita á morgun

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Það er nánast peysuveður á Höfn í Hornafirði á morgun.
Það er nánast peysuveður á Höfn í Hornafirði á morgun. VÍSIR/PJETUR
Veðurstofan gerir ráð fyrir því að hiti fari hækkandi fram að helgi. Þannig geti íbúar og gestir Suðausturlands gert ráð fyrir allt að 10 stiga hita á morgun.

Veðurfræðingur á vakt segir að vestlæg átt leiki nú um landið og beri með sér rakt og milt loft, sem gefur súld á vesturhelmingnum, jafn vel slyddu í innsveitum.

Fyrir austan verði þó mun bjartara og yfirleitt þurrt. Það hvessir á morgun úr suðvestri og bætir í vætuna, einkum þó vestan til.

Hiti víða 0 til 5 stig síðdegis í dag en frost 0 til 5 stig fyrir austan. Hitinn verður á bilinu 3 til 8 stig á morgun.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á fimmtudag:

Suðvestan 10-18 m/s, hvassast NV-til og súld eða rigning með köflum, en þurrt að kalla eystra. Hiti 2 til 9 stig, hlýjast fyrir austan.

Á föstudag:

Suðvestanátt, víða 10-15 m/s og rigning eða súld, en hægara og þurrt NA-lands. Vestlægari um kvöldið og bætir í vind. Hiti víða 3 til 8 stig.

Á laugardag og sunnudag:

Ákveðin vestanátt með skúrum eða slydduéljum, en úrkomulítið fyrir austan og kólnar í veðri.

Á mánudag og þriðjudag:

Snýst líklega á norðanátt með snjókomu eða éljum, en rofar til sunnan heiða. Kalt í veðri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×