Körfubolti

Jakob og félagar áfram á toppnum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jakob Örn Sigurðarson í leik með Íslandi á EM 2015.
Jakob Örn Sigurðarson í leik með Íslandi á EM 2015. vísir/valli
Jakob Örn Sigurðarson hélt upp á endurkomu sína í íslenska körfuboltalandsliðið með því að hjálpa sínu liði Borås Basket að vinna fimm stiga útisigur á Jämtland í sænsku úrvalsdeildinni í kvöld.

Borås vann leikinn 86-81 eftir að hafa unnið lokaleikhlutann með sjö stigum, 26-19.

Jakob skoraði tíu stig í leiknum þar á meðal setti hann niður tvö mikilvæg vítaskot átta sekúndum fyrir leikslok en hann kom Borås þá þremur stigum yfir, 84-81.

Jakob var með þrjár stoðsendingar, tvo þrista og tvo stolna bolta í leiknum en hann spilaði tæpar 29 mínútur og hitti úr 2 af 7 skotum sínum utan af velli. Jakob hitti síðan úr öllum fjórum vítaskotum sínum.

Borås hefur unnið þrjá leiki í röð og alls sex af fyrstu sjö deildarleikjum tímabilsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×