Erlent

Leikkonur í One Tree Hill saka framleiðanda um áreitni: „Ég er búin að vera reið í áratug“

Atli Ísleifsson skrifar
Mark Schwahn (til vinstri) var framleiðandi þáttanna One Tree Hill. Á myndinni hægra megin má sjá nokkra aðalleikara þáttanna, Chad Michael Murray, Sophia Bush, Bethany Joy Lenz, Hilarie Burton og James Lafferty árið 2005.
Mark Schwahn (til vinstri) var framleiðandi þáttanna One Tree Hill. Á myndinni hægra megin má sjá nokkra aðalleikara þáttanna, Chad Michael Murray, Sophia Bush, Bethany Joy Lenz, Hilarie Burton og James Lafferty árið 2005. Vísir/Getty

Fjöldi leikkvenna og starfsmanna bandarísku unglingaþáttanna One Tree Hill hafa ritað bréf þar sem framleiðandinn Mark Schwahn er borinn þungum sökum og er meðal annars sakaður um að hafa áreitt þær kynferðislega. Í bréfinu lýsa þær sömuleiðis yfir stuðningi við fyrrum samstarfskonu sína, Audrey Wauchope.



Leikkonurnar Sophia Bush, Hilarie Burton og Bethany Joy Lenz eru í hópi þeirra sem skrifa undir bréfið sem birt var á síðu Variety í gær. Segjast þær hafa valið þennan vettvang til að standa saman og til að styðja við bakið á handritshöfundinum Wauchope sem sakaði á laugardaginn Schwahn um að hafa áreitt sig kynferðislega.



One Tree Hill var einn vinsælasti unglingaþátturinn á fyrstu árum aldarinnar, en alls voru framleiddar níu þáttaraðir á árunum 2003 til 2012.



Glíma við áfallastreituröskun

Í bréfinu stíga átján konur, sem allar unnu að gerð þáttanna, fram og saka Schwahn um að hafa verið valdur sálrænu og tilfinningalegu tjóni hjá konunum. Margar þeirra hafa þurft að glíma við áfallastreituröskun vegna hegðunar Schwahn sem sumar kljást enn við.



Á Twitter-síðu sinni sagði Wauchope Schwahn ítrekað hafa snert hana óumbeðinn og þá hafi Schwann sýnt samstarfsmönnum nektarmynd af leikkonu, sem hann sagðist eiga í kynferðislegu sambandi við, án vitundar konunnar. Wauchope sakaði Schwahn einnig um að hafa kallað aðra samstarfskonu inn á skrifstofu til að þrýsta á hana að hætta við að ganga í hjónaband og byrja þess í stað með honum.



Hilarie Burton, sem fór með hlutverk Peyton Sawyer í þáttunum, segir á Twitter-síðu sinni að hún hafi verið reið í áratug vegna málsins og birtir hlekk á grein Variety.

Lesa má bréf leikkvenna og starfsfólks One Tree Hill á heimasíðu Variety.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×