„Síðasta áheyrnarprufa mín fyrir Steven Segal mynd fór fram inni á skrifstofunni hans. Hann sagði að það væri rosalega mikilvægt að það væru góðir straumar á milli okkar á setti, og því næst lét hann mig setjast niður og renndi niður leðurbuxunum sínum.“
Svona hefst færsla frá leikkonunni Portia de Rossi á Twitter en hún segist hafa því næst hlaupið út og sloppið frá leikaranum. Þau störfuðu aldrei saman.
Porita de Rossi er gift spjallþáttastjórnandanum Ellen DeGeneres en de Rossi sló fyrst í gegn í gamanþáttunum Ally McBeal. Þá fór hún með eitt aðalhlutverkanna í Arrested Development.
Ásakanirnar á hendur Segal koma í kjölfar háværrar umræðu í skemmtanabransanum í Hollywood þar sem hver karlmaðurinn á fætur öðrum hefur verið sakaður um kynferðislega áreitni. Þar hefur mest borið á leikaranum Kevin Spacey og leikstjóranum Harvey Weinstein.
