Erlent

Saka Louis C.K. um ósæmilega kynferðistilburði

Nína Hjördís Þorkelsdóttir skrifar
Louis C.K. hyggst ekki tjá sig um ásakanirnar.
Louis C.K. hyggst ekki tjá sig um ásakanirnar. vísir/getty

Fimm konur hafa tjáð sig opinberlega um ósæmilega kynferðistilburði grínistans Louis C.K. Konurnar starfa flestar sem uppistandarar og lýsa hegðun Louis C.K. á áþekkan hátt. New York Times greinir frá.



Louis C.K. er hvað þekktastur fyrir gamanþættina Louie sem eru lauslega byggðir á hans eigin lífi. Hann hefur á löngum ferli skrifað gamanþætti og uppistand auk þess sem hann hefur farið með hlutverk í kvikmyndum. Þá fór hann eftirminnilega með hlutverk Dave Sanderson, vandræðalegs lögreglumanns og fyrrverandi kærasta Lesley Knope, í þáttunum Parks and Recreation.



Ásakanirnar á hendur C.K. koma úr ýmsum áttum og spanna talsvert langt tímabil. Gríntvíeykið Dana Min Goodman og Julia Wolov sögðu sögu sína af samskiptum sínum við leikarann í samtali við New York Times. Sögðust þær hafa hitt Louis eftir vel heppnað gigg í Aspen í Colorado-ríki og þegið boð hans um að kíkja í smá „eftirpartý“ á hótelherbergi hans.



Leikarinn spurði konurnar í gríni, að þær héldu, hvort hann mætti „vippa honum út“ og þær hlógu fyrst um sinn. Því næst hóf Louis að afklæðast og stundaði sjálfsfróun fyrir framan þær.



Uppistandarinn Rebecca Corry hafði svipaða sögu að segja en hún segir Louis C.K. hafa spurt hana hvort hann mætti fylgja henni inn í búningsherbergi og fróa sér fyrir framan hana. Corry segist hafa bent honum á að hann væri kvæntur fjölskyldufaðir.



„Þá roðnaði hann og sagði mér að hann ætti við vandamál að stríða,“ sagði Corry um viðbrögð leikarans. 



Louis C.K. hefur ekki tjáð sig um ásakanirnar og hefur raunar gefið út yfirlýsingu um að hann ætli ekki að svara fyrirspurnum fjölmiðla um málið.



Nýjasta kvikmynd Louis C.K., I Love You Daddy, átti að vera frumsýnd í dag en sýningunni var aflýst. Þá stóð til að grínistinn kæmi fram í The Late Show með Stephen Colbert en hann hefur afboðað sig.  


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×