Erlent

38 konur saka leikstjórann James Toback um kynferðislega áreitni

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
James Toback hefur starfað í kvikmyndaiðnaðinum frá áttunda áratug síðustu aldar.
James Toback hefur starfað í kvikmyndaiðnaðinum frá áttunda áratug síðustu aldar. Vísir/Getty

Á fjórða tug kvenna hafa sakað leikstjórann James Toback um kynferðislega áreitni. The Los Angeles Times greinir frá því að 31 kona hafi stigið fram og lýst reynslu sinni af áreitni Tobacks síðustu þrjátíu ár.



Toback hefur neitað ásökunum og sagt að hann hafi aldrei hitt neina þeirra kvenna sem eigi í hlut eða að þegar hann hafi hitt þær hafi það verið í fimm mínútur og hann muni ekki eftir því.



James Toback, sem er 72 ára, hefur starfað í Hollywood síðan á áttunda áratug síðustu aldar. Hann var meðal annars tilnefndur til Óskarsverðlauna árið 1991 fyrir handrit að myndinni Bugsy. Nýjasta kvikmynd hans, The Private Life of a Modern Woman, var frumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Feneyjum í síðasta mánuði og skartar hún Siennu Miller í aðalhlutverki.



„Líffræðilega ómögulegt“ fyrir Toback

Konurnar sem LA Times ræddi við lýstu því að Toback hafi fróað sér fyrir framan þær, nuddað sér upp við þær og spurt óviðeigandi kynfeðrislegra spurninga og beðið þær um að taka þátt í kynferðislegum athöfnum.



Ein sagði að eftir slík kynni við Toback hafi henni „liðið eins og vændiskonu, eins og ég væri að bregðast sjálfri mér, foreldrum mínum og vinum.“ Þá hafi henni liðið eins og hún ætti ekki skilið að segja neinum frá áreitninni.



Toback sagði við LA Times að síðustu 22 ár hefði það verið „líffræðilega ómögulegt“ fyrir hann að gera það sem hann væri sakaður um sökum sykursýki og hjartasjúkdóms.



Umræða um kynferðislegt áreiti í garð kvenna í kvikmyndaiðnaðinum hefur verið í hámæli undanfarna daga eftir að fjöldi kvenna steig fram og opnaði sig um áreiti leikstjórans Harveys Weinstein.



Glenn Whipp, blaðamaður LA Times sem greindi frá ásökunum segir að síðan grein hans var birt á sunnudag hafi sú tala kvenna sem sakaði Toback um áreitni tvöfaldast frá þeim 38 sem rætt var við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×