Skoðun

100%

Þórir Garðarsson skrifar
Í umræðunni um virðisaukaskatt af ferðaþjónustu er því stundum haldið fram að sum ferðaþjónustufyrirtæki fái meira endurgreitt af virðisaukaskatti en þau innheimta.

Þetta er tómt rugl og byggist á þekkingarleysi. Allur innheimtur virðisaukaskattur skilar sér 100% í ríkissjóð.

Það sem ruglar umræðuna er hvernig virðisaukaskattur skilar sér. Hvert og eitt fyrirtæki leggur virðisaukaskatt á þjónustu sína. Ef fyrirtækið innheimtir sjálft lægri virðisaukaskatt en það greiðir öðrum fyrirtækjum, til dæmis vegna fjárfestinga eða umfangsmikilla rekstrarútgjalda, þá fær það mismuninn endurgreiddan. Annars væri um tvígreiðslu sama virðisaukaskatts að ræða. Fyrirtæki sem fær endurgreiðslu hagnast ekki um eina krónu á því, þar sem það er þá þegar búið að borga þennan virðisaukaskatt til einhvers annars fyrirtækis og á rétt á því að draga hann frá útskatti sínum. Það er ekkert til sem heitir neikvæður virðisaukaskattur.

Mikilvægt er að hafa þetta í huga þegar rætt er um að tvöfalda virðisaukaskatt á fyrirtæki í ferðaþjónustu til að gæta „jafnræðis“ við aðrar atvinnugreinar og hætt verði að „ívilna“ henni með lægra skattþrepinu. Það hefur ekkert með fyrirtækin að gera, heldur er einfaldlega verið að tala um að ferðamenn - neytendur - borgi tvöfalt meira í virðisaukaskatt.

Staðreyndin er hins vegar sú að það er vægast sagt óskynsamlegt að ætla að hækka virðisaukaskatt á ferðamenn. Ferðaþjónustan er í alþjóðlegri samkeppni um viðskiptavini. Til að vera samkeppnishæf þarf hún því að búa við sama virðisaukaskattstig og í öðrum löndum, sem er alls staðar í neðra þrepinu.

Með hækkun virðisaukaskattsins myndi kostnaður ferðamanna hér á landi hækka verulega. Nú þegar hefur hár kostnaður vegna sterkrar krónu og launahækkana haft lamandi áhrif á ferðaþjónustuna, sérstaklega á landsbyggðinni. Með hærri virðisaukaskatt í ofanálag er engin spurning að ferðamaðurinn verður fráhverfur viðskiptunum og leitar annað en til Íslands. Það eykur ekki tekjur ríkissjóðs, heldur þvert á móti.

Engar áhyggjur þarf að hafa af því að ferðamenn skili ekki nú þegar góðum tekjum til hins opinbera. Í fyrra voru vsk tekjur ríkissjóðs af viðskiptum ferðamanna um 40 milljarðar króna og heildartekjur hins opinbera af ferðaþjónustunni um 100 milljarðar króna.

Höfundur er stjórnarformaður Gray Line og varaformaður SAF




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×