Skoðun

Blóð, sviti og tár

Ellert B. Schram skrifar
Yndislegu sumri er að ljúka og tíminn er fljótur að líða þegar gaman er að vera til. Ekki síst hjá fólki sem komið er á efri ár og elskar hvern dag sem er dýrmætur.

Í félagi eldri borgara eru nú skráðir yfir ellefu þúsund manns, sem er met. Það er annasamt að vera formaður í svona stórum félagsskap, en um leið gefandi og ykkur að segja hef ég gaman og gagn af afskiptum mínum af margskonar viðburðum og samtölum.

Ekki er þar alltaf á vísan að róa, þegar leitað er upplýsinga um kjör og réttindi eldra fólks. Kerfið er stundum lítt skiljanlegt. Það þarf blóð, svita og tár til að laga það til.

Ein furðulegasta uppákoman er svokallað frítekjumark, sem felur í sér að þeir sem eiga rétt á ellilífeyri úr almenna tryggingarkerfinu, eru skertir í bótakerfinu, ef þeir vinna fyrir launum, sem gætu hjálpað þeim að eiga fyrir útgjöldum, mat og heilsueflingu, hjálpað þeim að njóta lífsins í staðinn fyrir að verða afgangsstærð í samfélaginu. Með öðrum orðum: þau eru föst í fátæktargildru.

Hverjum datt í hug að búa til svona kerfi? Af hverju er það ekki þurrkað burt með einu pennastriki? Af hverju dettur engum í hug á sextíu og þriggja manna Alþingi að leggja niður þessa vitleysu? Þessa óskiljanlegu fátæktargildru?

Ég get með engu móti skilið eða sætt mig við þá ákvörðun stjórnvalda, að búa til kerfi og lög sem fela í sér tillitsleysi gagnvart elstu kynslóðinni, fólkinu sem á að gleðjast á sinni lífsgöngu og vera með í daglegu lífi til æviloka.

Frítekjumarkið er afskræmi kerfisins í heimi „excel-skjala“. Og svo eru stjórnmálaflokkar notaðir til að „passa upp á tekjur ríkisins“ í einhverjum fjármálaáætlunum! Á kostnað eldri borgara sem eiga það inni hjá samfélaginu að fá að eiga áhyggjulaust ævikvöld.

Höfundur er formaður Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni  




Skoðun

Sjá meira


×