Viðskipti innlent

Aldrei hafa fleiri farið um Keflavíkurflugvöll

Atli Ísleifsson skrifar
Það hefur verið margt um manninn í Leifsstöð að undanförnu.
Það hefur verið margt um manninn í Leifsstöð að undanförnu. Vísir/Eyþór
Farþegar á Keflavíkurflugvelli á fyrst átta mánuðum ársins voru 5.954.761. Það er 32,4 prósent aukning frá sama tímabili í fyrra.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Isavia en þar segir enn fremur að gert sé ráð fyrir að heildarfjöldi farþega verði á bilinu 8,7-8,8 milljónir árið 2017 sem yrði um 28 prósent aukning frá fyrra ári.

„Skipting farþega er í samræmi við spár en um þriðjungur farþega flugvallarins eru tengifarþegar en aðrir farþegar skiptast í komu og brottfararfarþega.

Eins og undanfarin ár var sumarið annasamasti tíminn, en sumarið (júní – ágúst) var það stærsta á flugvellinum hingað til. Í fyrsta sinn í sögunni fóru yfir ein milljón farþega í gegnum flugvöllinn á einum mánuði og gerðist það í júlí og aftur í ágúst. Stærsti dagur sumarsins var 6. ágúst þegar 40.147 farþegar fóru í gegnum flugvöllinn, en það er 19% fleiri farþegar en á stærsta deginum í fyrra sumar.

Heilt yfir gekk umferð um flugvöllinn mjög vel í sumar og hafa þær afkastaaukandi framkvæmdir sem ráðist hefur verið í síðastliðin misseri skilað árangri. Biðtími í öryggisleit á flugvellinum var undir 5 mínútum hjá 88% farþega í ágústmánuði þrátt fyrir sögulegan fjölda farþega. Þá voru flug almennt oftar á réttum tíma miðað við sama tímabil í fyrra. Í sumar ákvað Isavia í samráði við Icelandair, Primera og Wow air að bjóða uppá innritun frá 12 á miðnætti fyrir þá sem áttu bókað morgunflug. Nokkur fjöldi farþega nýtti sér þessa auknu þjónustu sem skilaði dreifðara álagi í innritun og öryggisleit.

Vetraráætlun Keflavíkurflugvallar er orðin opinber, en á tímabilinu nóvember til mars 2018 er gert ráð fyrir um 830 þúsund auka sætum í boði frá sama tímabili í fyrra, eða um 27% aukning. Heildar framboð flugsæta verður um 3,8 milljónir í vetur en var um 3 milljónir síðastliðinn vetur.  Alls verða það 15 flugfélög sem fljúga til og frá Keflavíkurflugvelli í vetur til 69 áfangastaða,“ segir í tilkynningunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×