Skoðun

SA & samfélagsleg ábyrgð

Guðmundur Ingi Þóroddsson skrifar

Tugir fanga á Íslandi ljúka afplánun sinni á ári hverju. Þeir fara um sem frjálsir menn en eiga engu að síður erfitt með að fá störf og húsnæði. Helmingur þeirra sem losna brýtur af sér að nýju og endar á sama stað. Þetta kostar samfélagið milljarða enda snertiflöturinn víða, t.d. hjá lögreglu, dómstólum, fangelsunum, heilbrigðiskerfinu og velferðarkerfinu. Er þá ónefndur kostnaður dómþola og ekki síður brotaþola sem getur bæði verið fjárhagslegur og persónulegur.

Meira en helmingur fanga endar sem öryrkjar eða þarf á framfærslu sveitarfélaga að halda til langs tíma. Ekki alls fyrir löngu kom fram í fjölmiðlum að aldrei hafi jafn margir þegið fjárhagsaðstoð eins og um þessar mundir. Jafnframt kom fram að stærsti hópurinn væri einhleypir karlmenn með litla menntun. Langstærsti hópur fanga er einmitt einhleypir karlmenn með litla menntun. Þetta eru mennirnir sem koma út úr fangelsunum, frjálsir en hafa ekkert í farteskinu til að takast á við lífið.

Starfsþjálfun í fangelsum

Í mínum huga er skýrt að atvinnulífið, Samtök atvinnulífsins sérstaklega, þarf að koma að málum. Þróa mætti styttri námskeið þannig að fangar í afplánun fengju starfsþjálfun sem nýtast myndi utan veggja fangelsisins. Þá verður að vera vilji til að ráða fyrrverandi fanga til starfa því fái hann ekki tækifæri endar hann aftur í fangelsi. Það er samfélagslega hagkvæmt að fangar fái tækifæri og njóti aftur trausts.

Með því að skapa störf fyrir fyrrverandi fanga lækkar kostnaður og tekjur aukast í formi skatta, auk þess sem samfélagið fær nýta þegna sem skila einhverju til baka en taka ekki eingöngu. Ég skora því á Samtök atvinnulífsins og atvinnurekendur almennt að sýna samfélagslega ábyrgð í verki og taka upp hanskann fyrir fyrrverandi fanga.

Yfir til ykkar.

 

Greinarhöfundur er formaður Afstöðu – félags fanga.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×