Körfubolti

Besti leikmaður Grikkja missir af Eurobasket

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Giannis Antetokounmpo.
Giannis Antetokounmpo. Mynd/Getty
Hinn frábæri Giannis Antetokounpo verður ekki með Grikkjum á Evrópumótinu í körfubolta sem hefst í lok mánaðarins. 

Antetokounpo er mikill missir fyrir gríska landsliðið, en hann fór á kostum með liði Milwaukee Bucks í NBA deildinni í körfubolta á síðasta tímabili.

Antetokounpo greindi sjálfur frá því á samfélagsmiðlum í dag að hann myndi ekki spila fyrir landsliðið á Evrópumótinu. Hann er að glíma við hnémeiðsli og stóðst ekki prófanir hjá læknateymi Bucks í dag. Antetokounpo hafði yfirgefið æfingaferð gríska landsliðsins til að fara með félagsliði sínu til Kína.

„Ég var að reyna að plata sjálfan mig og hunsa sársaukann. Ég vonaði að ég yrði tilbúinn í Evrópumótiðl. Vilji minn hafði áhrif á dómgreindina en prófin sem ég fór í Kína sýndu sannleikann. Ég er meiddur og ég verð að leyfa mér að ná bata,“ sagði Antetokounpo í Facebook-færslu sinni í dag.

„Þetta eru mestu vonbrigði ferils míns. Landsliðið er mitt uppáhalds lið og ég hlakka til að snúa til baka og sanna mig og gera grísku þjóðina glaða.“

Grikkir eru andstæðingar Íslands í fyrsta leik á Evrópumótinu í Finnlandi, sem fram fer 31. ágúst næstkomandi. 

Fjarvera Antetokounpo eykur möguleika Íslands í leiknum, en það eru vonbrigði að fá ekki að sjá strákana spreyta sig gegn einum besta leikmanni heims. 




Tengdar fréttir

Tap gegn Ungverjum

Íslenska landsliðið í körfubolta tapaði 81-66 gegn Ungverjalandi í vináttulandsleik í dag. Leikurinn var liður í undirbúningi liðanna fyrir Evrópumótið sem hefst í lok mánaðarins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×