Körfubolti

KR-ingar drógust gegn belgísku liði og Búlgarar bíða

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Brynjar Þór Björnsson og félagar eru á leiðinni til Belgíu.
Brynjar Þór Björnsson og félagar eru á leiðinni til Belgíu. Vísir/Andri Marinó
Íslands- og bikarmeistarar KR þurfa ekki að fara mjög langt í Evrópukeppninni en dregið var í fyrstu umferð undankeppni FIBA Europe Cup í höfuðstöðvum FIBA í München.

KR-liðið lenti á móti belgíska félaginu Belfius Mons-Hainaut og mun fyrri leikurinn fara fram á heimavelli KR miðvikudaginn 20. september. Seinni leikurinn er síðan út í Belgíu viku síðar.

KR hafði heppnina með sér hvað varðar lengd ferðalagsins en hin liðin sem komu til greina voru mun lengra í burtu. KR gat líka lent á móti liðum frá Búlgaríu, Tékklandi, Ungverjalandi, Makedóníu, Póllandi, Rúmeníu, Tyrklandi og Úkraínu.

Belfius Mons-Hainaut endaði í sjöunda sæti í belgísku deildinni á síðustu leiktíð og tapaði síðan 2-0 í átta liða úrslitum úrslitakeppninnar. Liðið vann 18 leiki og tapaði 18 leikjum í deildarkeppninni en liðin í 5. til 8. sæti voru öll með jafnmörg stig.

Belfius Mons-Hainaut hefur aldrei orðið belgískur meistari en fjórum sinnum endaði í öðru sæti, síðast árið 2015.

Takist KR-ingum að slá út Belgana þá mætir liðið BC Beroe frá Búlgaríu í annarri umferð undankeppninnar. Sigurvegarinn úr þeim leikjum kemst síðan í riðlakeppnina.

BC Beroe varð búlgarskur meistari í fyrsta sinn á síðasta tímabili.

KR er fyrsta íslenska körfuboltaliðið í níu ár sem tekur þátt í Evrópukeppni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×