Íslenski boltinn

Halldór Kristinn: Gaman að fá að sparka aðeins í Hilmar Árna og hlusta á Óttar Bjarna væla

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Halldór Kristinn (nr. 4) skallar frá marki Leiknis eins og hann gerði svo oft í leiknum.
Halldór Kristinn (nr. 4) skallar frá marki Leiknis eins og hann gerði svo oft í leiknum. vísir/ernir
„Þetta bikarævintýri heldur áfram og vonandi höldum við áfram að koma öðrum á óvart,“ sagði alsæll Halldór Kristinn Halldórsson, miðvörður Leiknis R., eftir sigurinn á ÍA í kvöld. Með honum tryggðu Leiknismenn sér sæti í undanúrslitum Borgunarbikarsins í fyrsta sinn.

„Þetta var rosalega erfiður leikur á móti sterku liði. Við lögðum okkur alla fram og uppskárum eftir því.“

Leiknismenn spiluðu flottan fótbolta í fyrri hálfleik og voru sanngjarnt yfir að honum loknum. En í þeim seinni tóku Skagamenn yfir og voru líklegri aðilinn.

„Þetta er sagan okkar í sumar; við eigum góðan fyrri hálfleik. En mér leið betur í seinni hálfleik en oft áður. Mér fannst við skynsamir,“ sagði Halldór sem skallaði ófáa boltana frá marki Leiknis í kvöld.

„Það var nóg að gera og þannig á það að vera. Þetta eru skemmtilegustu leikirnir; mikið að gera, mikið af tæklingum og sköllum og mikil læti. Þetta var örugglega frábær skemmtun fyrir áhorfendur.“

Leiknismenn verða í pottinum þegar dregið verður í undanúrslit Borgunarbikarsins á morgun. En á Halldór sér óskamótherja?

„Nei, nei. Ég ætla ekki að fara svo langt. Við gefum öllum leik. Ef við spilum svona náum við að stríða hvaða liði sem er,“ sagði Halldór.

En kitlar það ekkert að mæta Stjörnunni sem er með nokkra Leiknismenn innan sinna raða?

„Jú, það væri gaman. Það er kannski óskamótherjinn. Það væri gaman að fá að sparka aðeins í Hilmar Árna [Halldórsson] og hlusta á Óttar Bjarna [Guðmundsson] væla aðeins. Það væri ákjósanlegt,“ sagði Halldór léttur að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×